Fjögurra manna fjöl­skylda sem numin var á brott af vopnuðum manni í Merced-sýslu í Kali­forníu síðast­liðinn mánu­dag fannst látin í gær. Í hópi hinna látnu var átta mánaða stúlka, Aroohi Dheri og for­eldrar hennar.

Fjöl­skyldan hvarf síðast­liðinn mánu­dag eftir að vopnaður maður kom inn í fjöl­skyldu­fyrir­tækið Uni­son Trucking Inc. Neyddi hann fjór­menningana til að koma með sér en í hópnum var litla stúlkan, for­eldrar hennar, Jas­leen Kaur og Jas­deep Sing­h og frændi þeirra, Amandeep Sing­h.

Hinn grunaði í málinu, Jesus Sal­ga­do, var hand­tekinn af lög­reglu á þriðju­dag en áður en lög­regla yfir­bugaði hann reyndi hann að svipta sig lífi með skot­vopni. Hann var fluttur á sjúkra­hús en mun vera á bata­vegi og hefur lög­regla þegar yfir­heyrt hann.

Það var bóndi í Merced-sýslu sem fann fjöl­skylduna látna á af­skekktum stað á landar­eign sinni í gær. Lög­regla hélt blaða­manna­fund í gær þar sem Vern Warn­ke, lög­reglu­stjóri Merced-sýslu, til­kynnti þetta.

„Það eru engin orð nógu sterk til að lýsa reiðinni sem býr í brjósti mér,“ sagði Warn­ke og bætti við: „Ég hef sagt það áður og segi það enn: Það er til sér­stakur staður í hel­víti fyrir þennan mann.“

Ekki liggur fyrir hvað Sal­ga­do, sem er 48 ára og dæmdur ræningi, gekk til þegar hann ruddist inn í fyrir­tækið og nam fólkið á brott. Engu var stolið í fyrir­tækinu en skömmu eftir að fjöl­skyldan var numin á brott voru fjár­munir teknir út af banka­reikningi eins úr hópnum. „Þarna var heil fjöl­skylda þurrkuð út og til hvers? Við vitum það ekki enn­þá,“ sagði Warn­ke.