Strætóbílstjóri í Frakklandi, sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás eftir að hafa neitað einstaklingum um far fyrir að bera ekki andlitsgrímur, er látinn.

Málið má rekja til þess þegar hópur ungra manna reyndi að fara inn í strætisvagn í bænum Bayonne í suðvesturhluta Frakklands síðustu helgi án þess að bera grímu. Auk þess höfðu þeir ekki keypt sér strætómiða. Samkvæmt sóttvarnarreglum í Frakklandi eiga allir farþegar að bera grímur.

Bílstjórinn bað þá um að yfirgefa vagninn og reiddust þá mennirnir mjög og réðust á bílstjórann og kýldu hann ítrekað í höfuðið. Hann var fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús.

Philippe Monguillot var úrskurðaður heiladauður á mánudag og ákvað fjölskylda hans, í samráði við lækna, að slökkva á öndunarvélinni í gær. Greint er frá þessu á vef Telegraph.

Fimm voru handteknir en tveir karlmenn, sem réðust á bílstjórann, voru ákærðir fyrir morðtilraun. Saksóknarinn James Bourrier segist ætla að breyta ákærunni í kjölfar andláts Monguillot. Verða mennirnir tveir ákærðir fyrir morð.