Fjölskylda Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf á síðasta ári í Dublin í Írlandi, hafnar því að írski miðillinn Independent hafi haft samband við sig vegna fréttaflutnings af meintu morði á Jóni. Fréttin sé í besta falli byggð á lélegum upplýsingum eða í versta falli skálduð og hafi valdið fjölskyldunni miklum harmi.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem undirrituð er af Þórunni Jónsdóttur, systur Jóns og birt er á Facebook síðu leitarinnar að Jóni. Líkt og fram hefur komið staðhæfði Independent.ie í frétt sinni að Jón hefði verið myrtur af öðrum Íslendingi.
Fullyrti miðillinn að Jón hefði tapað pening sem hann fékk hjá manninum, sem sagður var vera íslenskur glæpamaður. Átti þetta að hafa gerst á pókermóti og var fullyrt að maðurinn hefði myrt Jón fyrir slysni. Sagði Independent að maðurinn sæti inni í fangelsi á Íslandi.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, gat ekki staðfest umrædda frásögn þegar eftir því var leitað af hálfu Fréttablaðsins.
Segja miðilinn aldrei hafa haft samband
Í tilkynningu sinni segir Þórunn að Independent hafi fullyrt að haft hafi verið samband við fjölskyldu Jóns og hún látin vita af tjéðum upplýsingum miðilsins. „Þetta er algjörlega ósatt og hafa engar slíkar upplýsingar borist fjölskyldunni né höfum við fengið vísbendingar frá heimildarmanni í fangelsi,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafi írska og íslenska lögreglan staðfest við fjölskylduna að þeim hafi ekki borist neinar upplýsingar um það sem fram hafi komið í greininni. Þá hafi þeim upplýsingum ekki verið komið til blaðamanns Independent, Ali Bracken. Frásögn miðilsins sé því í besta falli byggð á lélegum heimildum eða í versta falli skálduð.
Segir fjölskyldan að fréttaflutningurinn í Independent og svo íslenskum miðlum hafi valdið fjölskyldunni óþarfi harmi. Blaðamaðurinn Ali Bracken hafi sýnt af sér vítavert gáleysi með óstaðfestum fréttaflutningi af svo viðkvæmu máli og segir fjölskyldan hið sama gilda um íslenska miðla.
Ætlar fjölskyldan sér því að senda inn formlega kvörtun til landsambands írskra blaðamanna vegna brota írska miðilsins á siðareglum og kanna réttarstöðu sína vegna málsins. Þá segist fjölskyldan einnig ætla að senda inn formlega kvörtun til Blaðamannafélags Íslands vegna fréttaflutnings íslenskra miðla um staðhæfingar Independent.ie.