Fjöl­skylda Jóns Þrastar Jóns­sonar, sem hvarf á síðasta ári í Dublin í Ír­landi, hafnar því að írski miðillinn In­dependent hafi haft sam­band við sig vegna frétta­flutnings af meintu morði á Jóni. Fréttin sé í besta falli byggð á lé­legum upp­lýsingum eða í versta falli skálduð og hafi valdið fjöl­skyldunni miklum harmi.

Þetta kemur fram í til­kynningu sem undir­rituð er af Þórunni Jóns­dóttur, systur Jóns og birt er á Face­book síðu leitarinnar að Jóni. Líkt og fram hefur komið stað­hæfði In­dependent.ie í frétt sinni að Jón hefði verið myrtur af öðrum Ís­lendingi.

Full­yrti miðillinn að Jón hefði tapað pening sem hann fékk hjá manninum, sem sagður var vera ís­lenskur glæpa­maður. Átti þetta að hafa gerst á póker­móti og var full­yrt að maðurinn hefði myrt Jón fyrir slysni. Sagði In­dependent að maðurinn sæti inni í fangelsi á Ís­landi.

Karl Steinar Vals­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá mið­lægri rann­sóknar­deild lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, gat ekki stað­fest um­rædda frá­sögn þegar eftir því var leitað af hálfu Frétta­blaðsins.

Segja miðilinn aldrei hafa haft sam­band

Í til­kynningu sinni segir Þórunn að In­dependent hafi full­yrt að haft hafi verið sam­band við fjöl­skyldu Jóns og hún látin vita af tjéðum upp­lýsingum miðilsins. „Þetta er al­gjör­lega ó­satt og hafa engar slíkar upp­lýsingar borist fjöl­skyldunni né höfum við fengið vís­bendingar frá heimildar­manni í fangelsi,“ segir í til­kynningunni.

Þá hafi írska og ís­lenska lög­reglan stað­fest við fjöl­skylduna að þeim hafi ekki borist neinar upp­lýsingar um það sem fram hafi komið í greininni. Þá hafi þeim upp­lýsingum ekki verið komið til blaða­manns In­dependent, Ali Brac­ken. Frá­sögn miðilsins sé því í besta falli byggð á lé­legum heimildum eða í versta falli skálduð.

Segir fjöl­skyldan að frétta­flutningurinn í In­dependent og svo ís­lenskum miðlum hafi valdið fjöl­skyldunni ó­þarfi harmi. Blaða­maðurinn Ali Brac­ken hafi sýnt af sér víta­vert gá­leysi með ó­stað­festum frétta­flutningi af svo við­kvæmu máli og segir fjöl­skyldan hið sama gilda um ís­lenska miðla.

Ætlar fjöl­skyldan sér því að senda inn form­lega kvörtun til land­sam­bands írskra blaða­manna vegna brota írska miðilsins á siða­reglum og kanna réttar­stöðu sína vegna málsins. Þá segist fjöl­skyldan einnig ætla að senda inn form­lega kvörtun til Blaða­manna­fé­lags Ís­lands vegna frétta­flutnings ís­lenskra miðla um stað­hæfingar In­dependent.ie.