Fjöl­skylda Johns Snorra Sigur­jóns­sonar er þess full­viss um að fjall­göngu­maðurinn hafi náð að komast upp á topp K2 fjallsins áður en hann hvarf. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fjöl­skyldunni, sem eigin­kona hans, Lína Móey Bjarna­dóttir, birtir á Face­book.

Líkt og fram hefur komið til­kynntu pakistönsk yfir­völd í dag að þau telji mennina nú af. Ekkert hefur spurst til þeirra Johns, Mu­hammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr í tæpar tvær vikur, eða frá 5. febrúar síðast­liðnum.

Í til­kynningu sinni þakkar fjöl­skyldan þeim sem hafa að­stoðað við leitina að þre­menningunum. Þeir hafi allir verið færir fjall­göngu­menn og því hæfir til þess að koma sér á topp K2 að vetrar­lagi.

„Miðað við tíma­setningu síðasta merkisins frá síma John Snorra erum við þess full­viss um að allir þrír mennirnir komust á topp K2 og að eitt­hvað hafi komið fyrir á leiðinni niður,“ segir í til­kynningu fjöl­skyldunnar sem skrifuð er á ensku.

Þar segir enn fremur að vin­átta þre­menninganna sé eitt­hvað sem þeim muni þykja vænt um. Þau séu því mjög þakk­lát fyrir öryggi sonar Mu­hammad Ali, Sajid, sem varð að yfir­gefa þre­menninganna á flösku­hálsi K2 vegna súr­efnis­vand­ræða.

„Ís­lensk hjörtu okkar munu slá með pakistönskum og sí­leskum,“ segir að lokum í til­kynningunni þar sem fjöl­skyldan þakkar fyrir stuðninginn. „Ali, John og Juan Pablo munu lifa að ei­lífu í hjörtum okkar.“

Our press releases this morning ❤ We are greatful to all of those participating in the search and rescue operations of...

Posted by Lína Móey on Thursday, 18 February 2021