Frank Bakke-Jensen, forstjóri norsku fiskistofunnar, og eiginkona hans Hilde Sjurelv hafa fengið morðhótanir í kjölfar aftöku rostungsins Freyju. Norska blaðið Verdens Gang greinir frá þessu.

Á sunnudag gaf Bakke-Jensen út tilskipun um aflífun Freyju og var henni fylgt eftir. Ástæðan var mikil aðsókn ferðamanna að rostungnum, sem hafði vakið mikla athygli. Aðsóknin olli áhyggjum af því að hún kynni að ráðast á fólk ef aðdáendur hennar gerðust of ágengir. Freyja var aflífuð á eins mannúðlegan hátt og kostur var á, sagði í tilkynningu um málið.

„Ég er alveg orðinn vanur því að fá hótanir, en mér finnst mjög alvarlegt þegar þær fara að beinast að fjölskyldu minni,“ er haft eftir Bakke-Jensen.

„Halló Hilde. Þú og eiginmaður þinn munu bráðlega verða myrt á heimili ykkar.“ segir í skilaboðum sem Hilde Sjurelv fékk send á Facebook, en hún segist vera hrædd og hefur nú lokað Facebook-reikningi sínum vegna málsins.

Hún segir hótanirnar koma úr ólíkum áttum. „Það er hótanir frá Þýskalandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð – Nánast bara hvaðan af sem er, úr öllum heimshornum,“

Bakke-Jensen segist ætla að tilkynna málið til lögreglu. Hann segist áður hafa þurft að gera lögreglu viðvart um hótanir í sinn garð, eða þegar hann var varnarmálaráðherra Noregs.

Aðspurður um hvort hann hefði tekið sömu ákvörðun varðandi Freyju hefði hann vitað um afleiðingarnar svarar hann játandi. „Ástandið var óviðráðanlegt, og fólki stafaði hætta af. Við vissum að við myndum fá hörð viðbrögð við ákvörðuninni.“