Valdís Brynja Hálfdánardóttir þurfti að flýja heimili sitt að Suðurgötu á Hofsósi í desem­ber 2019 ásamt eiginmanni sínum, Rúnari Þór Númasyni, og þremur börnum þeirra. Mörg þúsund lítrar af bensíni láku úr birgðatanki N1 við Kaupfélag Hofsóss og dreifðust um nærliggjandi svæði. Valdís segir farir sínar af samskiptum við Umhverfis­stofnun og N1 ekki sléttar.

„Þetta er búið að vera ógeðslega sorglegt ferli, ef ég á að vera alveg hreinskilin við þig.“

Umfangsmikil hreinsunaraðgerð stendur nú yfir í þorpinu á vegum Verkís og Umhverfisstofnunar. Skurðir hafa verið grafnir umhverfis húsin sem lentu í lekanum og sérstökum loftunarbúnaði, eins konar blásurum sem ætlað er að hreinsa loft og jarðveg, verður komið fyrir við hús Valdísar og Rúnars.

Umhverfisstofnun áætlar að hreinsunarstarfið geti tekið allt að þrjú ár, en telur að húsin eigi að verða íbúðar- og notkunarhæf fyrr. Valdís setur þó spurningarmerki við þessar fullyrðingar, enda er alls óvíst hver árangurinn af hreinsuninni verður og gæti hún hæglega dregist á langinn.

Tveimur blásurum hefur þegar verið komið fyrir utandyra hjá heimili Valdísar og Rúnars og einnig er stefnt að því að koma nokkrum fyrir innandyra. Búnaðurinn er á stærð við meðalstóra þvottavél og Valdís furðar sig á því að Umhverfisstofnun telji ásættanlegt að bráðum sex manna fjölskylda, því Valdís á von á sínu fjórða barni, búi við slíkar aðstæður inni á heimilinu.

„Ég skil alveg og ég vil leysa þetta, en þetta er samt ekki lausn, það er ekki hægt að bjóða fjölskyldu upp á að hafa þarna fullt af græjum í gangi og flytja svo inn í þetta hús.“

Húsið sem fjölskyldan þurfti að flytja í var mjög illa farið, með tilheyrandi músagangi og rakaskemmdum.
Mynd/Aðsend

Fluttu í niðurnítt 85 fermetra hús

Fjölskyldan var á vergangi um nokkurra mánaða skeið, eftir að hún neyddist til að yfirgefa húsið að Suðurgötu. Þau dvöldu fyrst í herbergi hjá móður Valdísar á Hofsósi, en fluttu svo í 85 fermetra hús í um fimm kílómetra fjarlægð frá þorpinu. Húsið fylgdi jörð sem þau höfðu keypt skömmu áður en lekinn gerði vart við sig, en var þó mjög illa farið, með tilheyrandi músagangi og rakaskemmdum, og þarfnaðist margra mánaða endurnýjunar áður en það varð íbúðarhæft.

„Þetta var bara í raun hræðilegt ástand, en sem betur fer eigum við ógeðslega gott bakland og fjölskyldan bara tók sig saman,“ segir Valdís.

Ljóst er að 85 fermetra illa farið hús dugar ekki sem framtíðarheimili fyrir sex manna fjölskyldu. N1 bauð fjölskyldunni 100.000 króna skaðabætur á mánuði til að nota upp í leigu annars staðar, upphæð sem dugar þó skammt fyrir leigu, jafnvel á landsbyggðinni.

„Þú færð hvergi leiguhúsnæði fyrir 100.000 krónur, hvað þá fyrir fimm manna fjölskyldu. Meira að segja á Hofsósi er það ekki í boði,“ segir Valdís.

Þá er hún ekki bjartsýn á að fjölskyldan geti flutt aftur inn í húsið á Suðurgötu í bráð, það er talið óíbúðarhæft af dómkvöddum matsmönnum.

Spurð um hvenær hún telji fjölskylduna geta snúið heim aftur segir Valdís:

„Guð, ég veit það ekki, ef það verður einhvern tíma. Ég meina, það er búið að dæma húsið ónýtt eins og staðan er núna.“

Skurðir hafa verið grafnir umhverfis húsin á Suðurgötu sem lentu í olíulekanum og sérstökum loftunarbúnaði komið fyrir.
Myndir/Aðsendar

Ósnertanlegt olíufyrirtæki

Að sögn Valdísar er óvissan verst. Í desember 2019 lofaði hún dóttur sinni að fjölskyldan væri bara að fara í heimsókn til ömmu í nokkrar nætur, en rúmum tveimur árum síðar eru þau enn ekki snúin aftur heim. Á meðan sitja þau uppi með húsnæðislán, fasteignagjöld, hita og rafmagn, af húsi sem er óíbúðarhæft og háa reikninga fyrir lögfræðikostnaði. Auk þess að þurfa sjálf að borga fyrir rafmagnið á hreinsunarbúnaðinn.

Valdís segir litlar sem engar bjargir fyrir fólk í þeirra stöðu. Þau hafi verið öll af vilja gerð að vinna með N1 að lausn, en olíufyrirtækið hafi þó ekki komið hreint fram í málinu. Það hafi til að mynda upphaflega reynt að draga í efa að mengunin í húsinu að Suðurgötu væri tengd lekanum úr birgðatankinum.

„Maður er alltaf í þessari baráttu, maður er alltaf einhvern veginn að reyna að sanna líf sitt og tilveru. Mér finnst eitt að þurfa að flytja út úr húsinu með fjölskylduna þína og leggja þetta á hana, en annað að þurfa í raun að berjast fyrir lífi þínu og réttlæti við olíufyrirtæki sem virðist í raun vera ósnertanlegt.“