Mögu­leiki er að þúsundir mála hafi verið vit­laust skráð af lög­reglu í Bret­landi og því ekki verið rann­sökuð sem skyldi en Guar­dian greinir frá þessu í dag.

Endur­skoðun á nauðgunar­málum hjá 34 lög­reglu­stöðvum á þriggja ára tíma­bili leiddi í ljós að af yfir 4.900 til­kynningum um nauðgun hafi 552 verið vit­laust skráð.

Út frá þeim tölum má draga þá á­lyktun að tíunda hvert mál sé vit­laust skráð hjá lög­reglu. Þar sem meira en 150 þúsund til­kynningar um nauðgun bárust á þessu tíma­bili er mögu­leiki að þúsundir mála hafi verið vit­laust með­höndluð.

Meðhöndlun ákveðinna lögreglustöðva á nauðgunarmálum.
Mynd/Guardian

Konur í við­kvæmri stöðu standa verst

Nokkrar á­stæður geta verið fyrir því að málin séu vit­laust með­höndluð, til dæmis að skýrslur séu ekki kláraðar eða að til­kynningarnar séu ekki flokkaðar sem glæpur heldur sem at­vik. Vit­laus skráning getur leitt til að málið sé ekki rann­sakað nánar og gerandi hefur tæki­færi til að brjóta af sér á ný.

Rann­sókn á lög­reglunni sýndi einnig að nauðgunar­mál kvenna í við­kvæmum að­stæðum væru lík­legri til þess að vera vit­laust með­höndluð. Þetta voru helst mál kvenna sem glímdu við and­leg veikindi, fíkn, heimilis­of­beldi eða voru fórnar­lömb mansals.

Lög­reglan og á­kæru­valdið eiga nú erfitt með að takast á við fjölgun til­kynninga um nauðgun en til­kynningarnar hafa meira en tvö­faldast frá árinu 2013.