Þingfundi lauk mun fyrr í gær en gert var ráð fyrir þegar tvö mál sem reiknað var með mestri umræðu um voru tekin af dagskrá.

Annað málið sem um er að ræða er fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Í breytingartillögu allsherjar- og menntamálanefndar um málið er gert ráð fyrir að um einskiptisaðgerð verði að ræða sem gildi út þetta ár en ekki varanlegt styrkjakerfi eins og menntamálaráðherra lagði upp með. Í nefndaráliti koma fram þau sjónarmið að vinna þurfi málið betur áður en um varanlegt kerfi geti verið að ræða. Skýra þurfi aðferðafræði styrkjanna til að tryggja betur að þeir hafi jákvæð áhrif á fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Sömuleiðis þurfi að huga að stöðu smærri fjölmiðla. Er lagt til að þessir þættir verði teknir til nánari skoðunar áður en um varanlegt styrkjakerfi verði að ræða. Ekki mun vera eining um þessa lendingu í stjórnarmeirihlutanum og kallaði framsögumaður málsins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, frumvarpið aftur til nefndarinnar áður en umræða um það hófst í þingsal. Málið var í kjölfarið tekið af dagskrá þingfundar.

Frumvarp umhverfis- og samgöngunefndar um breytingar á loftferðalögum var einnig tekið aftur inn í nefnd í gær. Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra fái heimild til að skylda flugrekendur til að synja farþega um komu til landsins framvísi hann ekki vottorði um ónæmisaðgerð gegn Covid-19, vottorði um að sýking sé afstaðin eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar telja að með þessu sé farið í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um að íslenskum ríkisborgurum verði ekki synjað um að koma til landsins. Heimildir Fréttablaðsins herma að verulegar efasemdir séu einnig um málið í þingliði Sjálfstæðisflokksins.

Eftir að umræða hófst um málið á Alþingi í gær ákvað framsögumaður málsins , Ari Trausti Guðmundsson, að taka það aftur inn til nefndar til að meirihlutinn fengi ráðrúm til að leysa ágreininginn og skila um málið framhaldsnefndaráliti. ■

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna.