Fjölmiðlar erlendis eru farnir að sýna áhuga á stöðunni á Keflavíkurflugvelli og ræða við ferðamenn sem hafa verið fastir á flugvellinum vegna ófærðar.
Ferðamenn hafa lýst yfir óánægju sinni á Twitter með dvölina á Keflavíkurflugvelli og er ljóst að það eru gríðarlega margir ósáttir.
Eins og Fréttablaðið fjallaði um fyrr í dag fullyrti einn ferðamaður að Keflavíkurflugvöllur og Icelandair ættu von á lögsóknum á meðan annar einstaklingur líkti dvölinni við fangadvöl í ömurlegu landi.
Í viðtali við NBC News lýsa hjón frá Missouri í Bandaríkjunum sem eru í brúðkaupsferð og um leið fyrstu ferð sinni út fyrir landsteina Bandaríkjanna ástandinu.
„Ég hef aldrei kunnað að meta hluti sem ég tek sem sjálfsögðu í mínu lífi fyrr en nú. Við erum föst án matvæla, eina sem hægt er að kaupa er rándýrt snarl og svo er kalt gólf til að sofa á,“ segir Becky Carsoní samtali við NBC.
Yahoo birtir sömu frétt og vitnar í NBC.
Hún segir að það hafi verið draumur hennar að sjá norðurljósin og að þetta eigi ekki eftir að draga úr ferðaáhuganum.
Americans among those stranded at Iceland's Keflavik Airport since the weekend, and unable to travel to their hotels due to severe weather.
— NBC News World (@NBCNewsWorld) December 20, 2022
"We were stranded with no real food, just overpriced snacks and a floor to sleep on," one passenger said. https://t.co/hAuOx27FaO
Tom Stirling, maður á fimmtugsaldri, lýsir því að átta ára sonur hans sem sé með flensu, hafi eytt nóttinni sofandi á köldum járnbekk á meðan hann svaf á gólfinu.
Tom, líkt og Jolene Christensen frá Virginíuríki í Bandaríkjunum, lýsa yfir að þeir sýni því skilning að það sé ekki hægt að ráða við hluti eins og ofsaveður en það skorti betri viðbragðsáætlun.
„Það helsta sem fór úrskeiðis var að leiðbeina og koma upplýsingum áleiðis til okkar sem voru föstu,“ sagði Jolene.