Sprenging hefur orðið á fjölda Íslendinga sem fá uppáskrifuð svokölluð megrunarlyf sem fyrst komu á markað hér á landi árið 2018. Á fjórum árum hefur notkunin nær tífaldast en árið 2018 fengu tæplega 900 einstaklingar hér á landi ávísað lyfjunum. Árið 2022 voru þeir orðnir tæplega níu þúsund.
Lyfin innihalda semaglútíð og er þeim sprautað í kvið, læri eða upphandlegg. Þau líkja eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem losað er úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst.
Guðrún Rútsdóttir, varaformaður PCOS samtaka Íslands og doktor í próteinefnafræði, skrifar um þessi nýju megrunarlyf sem Fréttablaðið fjallaði um á dögunum í pistli á Vísi.
„Jæja, þá er megrunarmánuðurinn janúar (megrunar?) búinn og best að snúa sér að næsta málefni: fitufordóma-febrúar,“ skrifar Guðrún, og ímyndar sér samtal milli tveggja einstaklinga.
„Eins og við vitum öll þá er fátt verra í þessum heimi en að vera feitur. Að vera feitur ber vott um óheilbrigðan lífsstíl, leti, litla sjálfstjórn og jafnvel heimsku. Og nú eru þessir örvæntingarfullu aumingjar farnir að beita lúalegum aðferðum eins og að nota rándýr megrunarlyf til að grennast. Þvílíkar afætur. Ég veit ekki hvort svona umræður fari fram einhvers staðar en það er hugsanlega ekki svo fjarri lagi,“ skrifar Guðrún.
Líkt og fyrr sagði birti Fréttablaðið frétt í vikunni þar sem fjallað er um aukningu á sölu slíkra megrunarlyfja. Í fyrra fjallaði fréttastofa RÚV um aukningu á notkun blóðsykurslækkandi lyfja.
„Það vill svo til að hér er verið að tala um sömu lyfin og það er nokkuð ljóst að notkun þeirra, síðan þau komu á íslenskan markað fyrir fimm árum, hefur stóraukist. Lyfin eru markaðssett fyrir fólk með sykursýki til að hafa stjórn á blóðsykrinum, en geta líka haft áhrif á þyngdarstjórnun. Þó lyfin séu markaðssett fyrir sykursjúka hafa þau reynst konum með PCOS vel,“ skrifar Guðrún, sem segir PCOS heilkennið hafa áhrif á efnaskipti líkamans, frjósemi og hormónakerfi.
„Það hrjáir allt að tuttugu prósent kvenna en er mjög vangreint. Þetta er flókið erfðatengt heilkenni sem ekki er fyllilega skilið, eins og flest sem lýtur að hormónakerfi kvenna, en ljóst er að hækkað insúlín, sem er partur af PCOS heilkenninu, spilar þar stóra rullu,“ skrifar hún.
Einkennin séu margvísleg en þau helstu séu óreglulegar blæðingar, einkennandi útlit á eggjastokkum við ómskoðun og merki um aukin androgen áhrif á húð, það er að segja bólur og aukinn hárvöxtur.
„Heilkennið veldur einnig verulegri aukinni áhættu á ófrjósemi, sykursýki 2, háum blóðþrýstingi, hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. Til að halda einkennum PCOS niðri er mikilvægt að hafa stjórn á blóðsykrinum og að halda sér í kjörþyngd getur líka haft jákvæð áhrif á einkenni. Við sem erum með PCOS vitum að þetta er hægara sagt en gert, en konur með PCOS eiga margar hverjar einmitt mjög erfitt með þyngdarstjórnun og að léttast,“ skrifar Guðrún.
Stór partur kvenna með PCOS þrói með sér insúlínviðnám, en um sjötíu og fimm prósent kvenna með PCOS séu í yfirþyngd.
„Þessi svokölluðu megrunarlyf hafa hjálpað konum með PCOS að hafa stjórn á blóðsykri og halda niðri PCOS einkennum. Í sumum tilfellum hafa þau líka hjálpað við þyngdarstjórnun en það er þó ekki algilt,“ skrifar hún.
Guðrún segist fagna því að Fréttablaðið skuli sýna áhuga á verkferlum í kringum ávísanir þessara lyfja með því að senda fyrirspurn á Landlækni, þó hún telji það líklegra að fyrirspurnin hafi verið send með þeim tilgangi að fletta ofan af nýju megrunaræði sem fer eins og eldur um sinu á TikTok.
„Á meðan blaðamenn Fréttablaðsins bíða svara frá Landlækni má ég til með að benda á að einungis hluti þeirra sem er ávísað lyfinu fær það niðurgreitt frá Tryggingastofnun. Svo virðist sem eingöngu notendur greindir með sykursýki fái niðurgreiðslu en aðrir ekki. Jafnvel þó lyfið gagnist mun breiðari hópi og sé einmitt líka notað sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn sykursýki hjá til dæmis PCOS konum með insúlín viðnám,“ skrifar hún.
„Þetta eru ný lyf á markaði sem virðast hjálpa breiðum hópi fólks. Það er ekkert óeðlilegt við að það sé mikil aukning á notkun nýrra lyfja milli ára og í raun væri annað óeðlilegt. Ég frábið mér umræðu um að „vinsældirnar“ séu byggðar á auglýsingum á TikTok frekar en góðum áhrifum á heilsu fólks,“ skrifar Guðrún og biðlar til fjölmiðla.
„Nú hafið þið mælt með megrunum í janúar, fitufordómum í febrúar. Hvernig væri að mæla með (sjálfs)mildi í mars?“