Sprenging hefur orðið á fjölda Ís­­­lendinga sem fá upp­á­skrifuð svo­kölluð megrunar­lyf sem fyrst komu á markað hér á landi árið 2018. Á fjórum árum hefur notkunin nær tí­faldast en árið 2018 fengu tæp­lega 900 ein­staklingar hér á landi á­vísað lyfjunum. Árið 2022 voru þeir orðnir tæp­lega níu þúsund.

Lyfin inni­halda sema­glú­tíð og er þeim sprautað í kvið, læri eða upp­­­hand­­­legg. Þau líkja eftir náttúru­­­lega hormóninu GLP-1 sem losað er úr þörmum eftir mál­­­tíðir og hefur marg­vís­­­leg á­hrif á stjórnun glú­kósa og matar­­­lyst.

Guð­rún Rúts­dóttir, vara­­for­­maður PCOS sam­­taka Ís­lands og doktor í prótein­efna­­fræði, skrifar um þessi nýju megrunar­lyf sem Frétta­blaðið fjallaði um á dögunum í pistli á Vísi.

„Jæja, þá er megrunar­­mánuðurinn janúar (megrunar?) búinn og best að snúa sér að næsta mál­efni: fitu­­for­­dóma-febrúar,“ skrifar Guð­rún, og ímyndar sér samtal milli tveggja einstaklinga.

„Eins og við vitum öll þá er fátt verra í þessum heimi en að vera feitur. Að vera feitur ber vott um ó­­heil­brigðan lífs­stíl, leti, litla sjálf­­stjórn og jafn­vel heimsku. Og nú eru þessir ör­væntingar­fullu aumingjar farnir að beita lúa­­legum að­­ferðum eins og að nota rán­­dýr megrunar­lyf til að grennast. Því­­líkar af­ætur. Ég veit ekki hvort svona um­­ræður fari fram ein­hvers staðar en það er hugsan­­lega ekki svo fjarri lagi,“ skrifar Guð­rún.

Líkt og fyrr sagði birti Frétta­blaðið frétt í vikunni þar sem fjallað er um aukningu á sölu slíkra megrunar­lyfja. Í fyrra fjallaði fréttastofa RÚV um aukningu á notkun blóð­sykurs­lækkandi lyfja.

„Það vill svo til að hér er verið að tala um sömu lyfin og það er nokkuð ljóst að notkun þeirra, síðan þau komu á ís­­lenskan markað fyrir fimm árum, hefur stór­aukist. Lyfin eru markaðs­­sett fyrir fólk með sykur­­sýki til að hafa stjórn á blóð­­sykrinum, en geta líka haft á­hrif á þyngdar­­stjórnun. Þó lyfin séu markaðs­­sett fyrir sykur­­sjúka hafa þau reynst konum með PCOS vel,“ skrifar Guð­rún, sem segir PCOS heilkennið hafa áhrif á efnaskipti líkamans, frjósemi og hormónakerfi.

„Það hrjáir allt að tuttugu prósent kvenna en er mjög van­­greint. Þetta er flókið erfða­­tengt heil­­kenni sem ekki er fylli­­lega skilið, eins og flest sem lýtur að hormóna­­kerfi kvenna, en ljóst er að hækkað insúlín, sem er partur af PCOS heil­­kenninu, spilar þar stóra rullu,“ skrifar hún.

Ein­­kennin séu marg­vís­­leg en þau helstu séu ó­­­reglu­­legar blæðingar, ein­­kennandi út­lit á eggja­­stokkum við ó­m­­skoðun og merki um aukin androgen á­hrif á húð, það er að segja bólur og aukinn hár­­vöxtur.

„Heil­­kennið veldur einnig veru­­legri aukinni á­hættu á ó­­frjó­­semi, sykur­­sýki 2, háum blóð­­þrýstingi, hjarta- og æða­­sjúk­­dómum og krabba­­meini. Til að halda ein­­kennum PCOS niðri er mikil­­vægt að hafa stjórn á blóð­­sykrinum og að halda sér í kjör­þyngd getur líka haft já­­kvæð á­hrif á ein­­kenni. Við sem erum með PCOS vitum að þetta er hægara sagt en gert, en konur með PCOS eiga margar hverjar ein­mitt mjög erfitt með þyngdar­­stjórnun og að léttast,“ skrifar Guð­rún.

Stór partur kvenna með PCOS þrói með sér insúlín­við­nám, en um sjö­tíu og fimm prósent kvenna með PCOS séu í yfir­­þyngd.

„Þessi svo­kölluðu megrunar­lyf hafa hjálpað konum með PCOS að hafa stjórn á blóð­­sykri og halda niðri PCOS ein­­kennum. Í sumum til­­­fellum hafa þau líka hjálpað við þyngdar­­stjórnun en það er þó ekki al­­gilt,“ skrifar hún.

Guð­rún segist fagna því að Frétta­blaðið skuli sýna á­huga á verk­­ferlum í kringum á­vísanir þessara lyfja með því að senda fyrir­­­spurn á Land­­lækni, þó hún telji það líklegra að fyrirspurnin hafi verið send með þeim tilgangi að fletta ofan af nýju megrunaræði sem fer eins og eldur um sinu á TikTok.

„Á meðan blaða­­menn Frétta­blaðsins bíða svara frá Land­­lækni má ég til með að benda á að einungis hluti þeirra sem er á­vísað lyfinu fær það niður­­­greitt frá Trygginga­­stofnun. Svo virðist sem ein­­göngu not­endur greindir með sykur­­sýki fái niður­­­greiðslu en aðrir ekki. Jafn­vel þó lyfið gagnist mun breiðari hópi og sé ein­mitt líka notað sem fyrir­­byggjandi að­­gerð gegn sykur­­sýki hjá til dæmis PCOS konum með insúlín við­­nám,“ skrifar hún.

„Þetta eru ný lyf á markaði sem virðast hjálpa breiðum hópi fólks. Það er ekkert ó­­eðli­­legt við að það sé mikil aukning á notkun nýrra lyfja milli ára og í raun væri annað ó­­eðli­­legt. Ég frá­bið mér um­­ræðu um að „vin­­sældirnar“ séu byggðar á aug­­lýsingum á TikTok frekar en góðum á­hrifum á heilsu fólks,“ skrifar Guð­rún og biðlar til fjöl­miðla.

„Nú hafið þið mælt með megrunum í janúar, fitu­­for­­dómum í febrúar. Hvernig væri að mæla með (sjálfs)mildi í mars?“