Á fimmtudaginn verða kynnt ný viðmið þar sem settar eru fram leiðbeiningar um hvernig best megi fjalla um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum án þess að umfjöllun ali á fordómum gagnvart fólki með geðrænan vanda. Viðmiðunum er skipt í tvennt, annars vegar viðmið fyrir almenna umfjöllun um geðheilbrigðismál og svo viðmið fyrir umfjöllun um sjálfsvíg.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra Geðhjálpar, var formaður stýrihóps sem heilbrigðisráðherra skipaði fyrir rúmu ári síðan og sá um að semja viðmiðin. Hún segir í samtali við Fréttablaðið að markmið hópsins hafi verið að móta viðmið fyrir fjölmiðla í þeim tilgangi að draga úr fordómum gagnvart fólki með geðrænan vanda.

Anna Gunnhildur var á þeim tíma sem hún var skipuð formaður enn framkvæmdastýra Geðhjálpar og segir það í raun risastórt skref að henni hafi verið boðið að stýra nefndinni.

„Bara það er stórt skref, að fulltrúa notenda hafi verið boðið að leiða slíkt verkefni og taka þannig ábyrgð í stefnumótun. Við erum því mjög þakklát fyrir það,“ segir Anna Gunnhildur.

Í hópnum sátu einnig fulltrúar frá heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Blaðamannafélagi Íslands, Háskóla Íslands og Samráðsvettvangi geðúrræðanna á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn tók til starfa í desember og skilaði skýrslu með viðmiðunum til heilbrigðisráðherra í síðustu viku.

Fólk leiti sér síður aðstoðar sé það með fordóma

„Á­stæðan fyrir því að farið var í þessa vinnu var að stuðla að um­fjöllun um geð­heil­brigðis­mál. Að hún sé fag­leg og að hún varpi ekki út í sam­fé­lagið for­dómum. For­dómar eru slæmir því þeir hafa á­hrif á hvernig al­menningur lítur á geð­rænan vanda, auk þess sem þeir auka líkur á sjálfs­for­dómum,“ segir Anna Gunn­hildur.

Hún segir sjálfs­for­dóma meðal annars hættu­lega því að þeir geti valdið því að fólk leiti sér síður hjálpar og viður­kenni síður vandann fyrir sjálfum sér.

Anna Gunn­hildur segir að hópurinn hafi byrjað á því að leita að efni hér á Ís­landi og hafi lítið fundið sem hægt hafi verið að styðjast við. Þá hafi þau leitað er­lendis og á því sé efnið að ein­hverju leyti byggt á, til dæmis, við­miðum um um­fjöllun um sjálfs­víg frá Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnun.
Hún segir að þegar þau hafi verið komið með á­kveðna grind fyrir við­miðin hafi þau fengið á fund nefndarinnar fjöl­miðla­fólk, heil­brigðis­starfs­fólk, not­endur kerfis og að­stand­endur í því skyni að afla sjónar­miða þessara hópa.

„Þá fylgdumst við einnig með um­fjöllun í fjöl­miðlum á þessum tíma og um­ræðunni sem var í gangi á meðan við vorum í þessari vinnu,“ segir Anna Gunn­hildur.

Spurð hvort um­fjöllun fjöl­miðla í tengslum við geð­rænan vanda sé al­mennt fag­leg segir Anna Gunn­hildur erfitt að meta efnið í heild sinni.

„Fjöl­miðlar eru mjög víð­feðmur heimur, þeir eru ó­líkir í eðli sínu og mis­metnaðar­fullir. Við fundum frá­bær dæmi um fag­lega um­fjöllun eins og greina­flokkinn hennar Guð­rúnar Hálf­dánar­dóttur á mbl.is og þættina hennar Lóu Pind Al­dísar­dóttur á Stöð 2. Margir miðlar standa sig mjög vel en svo eru aðrir sem að ramba stundum á brúninni,“ segir Anna Gunn­hildur.

Á morgun­verðar­fundinum á fimmtu­daginn mun Kristinn Rúnar Kristins­son segja frá slíku dæmi en hann fékk ó­um­beðna at­hygli eins dag­blaðs þegar hann stillti sér upp alls­nakinn á Austur­velli í maníu.

„Hann mun fjalla um það að, í maníu, gerði hann eitt­hvað sem hann hefði annars ekki gert og fékk fyrir það al­gjör­lega ó­um­beðna at­hygli,“ segir Anna Gunn­hildur.

Starfshópurinn með ráðherra þegar þau skiluðu tillögunum í síðustu viku.
Mynd/Heilbrigðisráðuneytið

Stuðla að vandaðri orðanotkun fjölmiðla

Í viðmiðunum segir sérstaklega að forðast að ætti að segja frá óvenjulegri hegðun fólks í geðrænu ójafnvægi.

Hvað varðar sjálfsvíg er sérstaklega fjallað um orðanotkun í viðmiðunum og segir Anna Gunnhildur að það hafi verið annað markmið viðmiðanna, auk þeirra að koma í veg fyrir fordóma, að stuðla að vandaðri orðanotkun.

„Við höfum upplifað óöryggi hjá fjölmiðlafólki um hvaða orð er rétt að nota,“ segir Anna Gunnhildur.

Í viðmiðunum er bæði að finna lista yfir orð eða orðnotkun sem talin er heppileg fyrir slíka umfjöllun auk þess sem þar er að finna lista af aðilum sem geta aðstoðað við slíka umfjöllun.

Í tengslum við það segir Anna Gunnhildur sjaldnast nauðsynlegt að tiltaka greiningar, oft sé góður kostur að tala um einkenni, eins og að einstaklingur upplifi tímabundið ójafnvægi eða heyri raddir eða eitthvað slíkt, frekar en að setja fram staðlaðar greiningar.

35 til 40 sjálfsvíg á Íslandi á hverju ári

Í viðmiðunum segir að sjálfsvíg sé ein mesta heilsufarsvá nútímans. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur gefið út að um 800.000 manns stytti sér aldur á hverju ári í heiminum öllum. Hér á landi enda á bilinu 35 til 40 einstaklingar á öllum aldri líf sitt ár hvert. Sjálfsvíg dreifast nokkuð jafnt á aldurshópa þó að sjálfsvíg ungs fólks hafi vakið mesta athygli á síðustu árum. Einkum hafa sjónir almennings beinst að tíðum sjálfsvígum ungra karla.

Þar segir enn fremur að fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á að fjölmiðlar geti haft áhrif á fjölda sjálfsvíga bæði til fjölgunar og fækkunar. Mun fleiri rannsóknir hafi þó verið gerðar á neikvæðum afleiðingum fjölmiðlaumfjöllunar um sjálfsvíg heldur en jákvæðum hliðum slíkrar umfjöllunar.

Hætta á „hermi-sjálfsvígum“

Anna Gunn­hildur segir að með ó­gæti­legri um­fjöllun um sjálfs­víg sé á­vallt hætta á svo­kölluðum „hermi-sjálfs­vígum“.
„Það er því ekki gott að tala um hvaða að­ferð var beitt eða hvar við­komandi stytti sér aldur því þá getur hættan aukist á hermi-sjálfs­vígum,“ segir Anna Gunn­hildur.

Hún nefnir sem dæmi á móti eina þekktustu rann­sóknina sem hafi sýnt fram á fækkun sjálfs­víga en það er rann­sókn sem leiddi í ljós að miðlun vandaðra for­varnar­upp­lýsinga í neðan­jarðar­lestar­kerfi Vínar­borgar leiddi til 75 prósenta fækkunar sjálfs­víga í kerfinu og 20 prósenta fækkunar í borginni allri.

„En við höfum líka talað um að ef fjallað er um sjálfs­víg af ein­hverri á­stæðu sé hægt að tengja það við ein­hverja þætti í sam­fé­laginu sem hægt er að bæta, eins og þær að­stæður sem geti legið að baki. Eins og sam­fé­lags­legan veru­leika ungra karl­manna. Í því sam­bandi hefur því verið velt upp hvað þurfi að bæta til að draga úr líkum á því að ungir menn upp­lifi van­líðan,“ segir Anna Gunn­hildur að lokum.

Við­miðin verða kynnt á opnum morgun­verðar­fundi heil­brigðis­ráðu­neytisins á Grand Hótel, Hvammi, fimmtu­daginn 31. októ­ber kl. 9.00 – 10.30. Fundar­stjóri verður Ingi­björg Sveins­dóttir og munu taka til máls á við­burðinum þau Kristinn Rúna Kristins­son, Lóa Pind Al­dísar­dóttir, Al­dís Bald­vins­dóttir og Anna Gunn­hildur.

Hægt er að kynna sér viðmiðin sjálf hér á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins.