Einkareknum fjölmiðlum stendur nú til boða að sækja um sérstakan rekstrarstuðning til ríkisins sem ætlað er að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19.

Stuðningurinn, sem nemur í heildina 400 milljónum króna, er veittur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í fjölmiðlalögum um heimild til að veita fjölmiðlum rekstrarstuðning.

Á nýliðnu þingi var Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, gert að útfæra stuðninginn og hefur reglugerð þess efnis nú verið birt.

Stuðningurinn nemur að hámarki 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda.

Mega ekki skulda skatta eða önnur opinber gjöld

„Undir stuðningshæfan rekstrarkostnað fellur beinn launakostnaður umsækjanda til blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna og ljósmyndara á árinu 2019 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni og beinar verktakagreiðslur til sambærilegra aðila,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Meðal skilyrða fyrir rekstrarstuðningnum eru að fjölmiðill starfi með leyfi frá fjölmiðlanefnd, efni hans sé fjölbreytt og ætlað almenningi á Íslandi og að hann sé ekki í vanskilum við hið opinbera.

Ber fjölmiðlum að skila inn umsóknum um styrk fyrir 7. ágúst næstkomandi og verður mat á umsóknum í höndum fjölmiðlanefndar.

Frumvarpið enn í nefnd

Áður var búið að gera ráð fyrir fjárheimildinni í fjárlögum yfirstandandi árs en þá vegna frumvarps Lilju um reglulegan fjárstuðning við einkarekna fjölmiðla.

Það frumvarp hefur ekki hlotið brautargengi á þinginu og er enn til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.