Einkalíf Jóhönnu Guðrúnar var áberandi í fjölmiðlum árið 2021 þegar hún skildi við eiginmann sinn og barnsföður og hóf nokkru síðar nýtt samband. Þegar hún svo varð barnshafandi snemma í því sambandi birtu miðlar fréttir um það án þess þó að hafa samband við hana til að fá fréttina staðfesta. Í helgarblaði Fréttablaðsins segir hún hafa upplifað það sem nýjar lægðir hér á landi
„Það sem mér fannst mjög ljótt var að þetta voru mjög persónuleg mál á mjög viðkvæmum tíma í mínu lífi og það var enginn sem hringdi í mig og spurði mig út í þetta. Ég var sjálf ekki búin að tilkynna neins staðar á netinu að ég væri ófrísk. Ég var ekki búin að segja dóttur minni, enda vildi ég bíða fram yfir 20 vikna sónarinn til að ganga úr skugga um að allt væri með felldu. Ég gat ekki hugsað mér að segja henni fyrr en ég vissi það. Maður veit aldrei.“
Sú bið styttist skyndilega þegar Jóhanna sá fréttir um sjálfa sig og þurfti að segja þá sex ára dóttur sinni það símleiðis að hún ætti von á systkini, svo hún heyrði það ekki annars staðar frá.
„Þarna var valdið tekið úr höndum mér og mér fannst farið algjörlega yfir línuna og ráðist inn í mitt persónulega rými. Það hefði verið það minnsta að ég hefði fengið að staðfesta þetta. Ég veit ekki hvernig blaðamenn fengu þetta staðfest, kannski spurðu þeir einhvern úti í bæ, en mér er alveg sama á meðan þau spurðu ekki mig, sem fréttin fjallaði um. Ég veit að þetta er ekkert einsdæmi þegar kemur að óviðeigandi greinum en þetta var það versta sem ég hafði lent í – þótt ég hafi lent í ýmsu í þessum efnum. Þetta fannst mér nýjar lægðir og vona að þetta sé ekki það sem koma skal á Íslandi. Ég kærði mig ekki um að þetta færi í fjölmiðla og hafði því sjálf ekkert sett á samfélagsmiðla.“