Fjölmiðlanefnd metur það svo að Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt árið 2019 en með fyrirvara um túlkun á ákvæði um sjálfstæða framleiðendur.

Gerð var krafa um að RÚV verði 11 prósentum af heildartekjum í kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Í skýrslunni sem kom út rétt fyrir áramót er vísað í greinargerð RÚV um að 766 milljónum króna hafi verið varið í kaupin, eða 11,15 prósentum af heildartekjum.

Á lista RÚV yfir sjálfstæða framleiðendur sem afhentur var í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál var að finna stjórnendur þátta sem framleiddir voru af RÚV og verktakagreiðslur til aðila sem skráðir voru starfsmenn á vef RÚV. Niðurstaða nefndarinnar er sú sama og í skýrslu fyrir árið 2018 sem kom út í nóvember. Miðar fyrirvari nefndarinnar að orðalagi í þáverandi þjónustusamningi og túlkun RÚV. Fjölmiðlanefnd óskaði ekki eftir túlkun ráðuneytisins á ákvæðinu.

Skerpt á hugtakinu í nýjum samningi

Í nýjum þjónustusamningi sem var undirritaður í vikunni er verulega skerpt á hugtakinu. Er sérstaklega tekið fram að greiðslur til þáttarstjórnenda og tæknimanna verði ekki taldar sem greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda. Sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, að ákvæðið í nýja samningnum væri ótvírætt sinn skilningur á hugtakinu.

Út árið 2023 verður RÚV gert að verja 12 prósentum af innheimtu útvarpsgjaldi, ekki verður miðað við heildartekjur eins og í fyrri samningi. Það þýðir að krafan fer úr rúmum 750 milljónum króna í fyrra en niður í rúmar 550 milljónir á næsta ári. Ráðherra segir að þetta sé gert til að tryggja fyrirsjáanleika en markmiðið sé að upphæðin verði svipuð og í fyrri samningi.

Kvikmyndaframleiðendur ánægðir

Ánægja er meðal kvikmyndaframleiðenda. „Það er jákvætt að ráðuneytið hafi stigið inn í þetta og að tekin séu af öll tvímæli. Við væntum þess að framkvæmd RÚV breytist í takti við það,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins.
Fbl_Megin: Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum, segir vonbrigði að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsingamarkaði en það sé verið að draga úr krafti þess á markaði. „Þetta er í fyrsta sinn sem bónusgreiðslur eru bannaðar, það minnkar söluhvata,“ segir Magnús.

„Fjölmiðlanefnd, systurstofnun þeirra, hefur margsinnis síðustu ár úrskurðað að ýmsar söluaðferðir þeirra séu ekki í samræmi við lög. Allt árið 2019 var salan ólögleg þar sem ekki var búið að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum, til að forðast greiðslu virðisaukaskatts. Ef ég hefði gert það sama væri ég einfaldlega í fangelsi.“

Magnús segir að gagnsæi í sölu auglýsinga og bann við afsláttum sé einnig framfaraskref. „Þeir hafa selt auglýsingapakka með alls kyns skilyrðum um magnkaup og einkakaup, ef þetta verður raunverulega gagnsætt þá verður hvorki hvati né kvöð fyrir auglýsendur til að fara með allar sínar birtingar til ríkisins.“

Háskólasamfélagið fái svæði á vef RÚV

Í þjónustusamningnum er kveðið á um að Ríkisútvarpið þrói svæði á vef sínum þar sem háskólasam­félagið geti miðlað efni í hljóði, mynd og texta. Magnús segir að þarna sé ríkið að seilast of langt. „Við höfum verið að þróa svipaða hugmynd, nú munum við setja það til hliðar. Alveg eins og við gáfumst upp á að reka SíminnKrakkar á sínum tíma þegar KrakkaRÚV fór frítt í loftið,“ segir Magnús. „Er það virkilega hlutverk ríkisins að byrja að keppa á nýjum vettvangi?“

Varðandi hvort það muni skila sér til einkarekinna miðla að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði segir Magnús að fé muni renna til samskiptamiðla en það skipti samt miklu máli. „Það er stöðug þróun í þessu, okkar tekjur hafa verið að aukast með vöruþróun og við eigum nú auðvelt með að nálgast ýmsa markhópa á svipaðan hátt og netið. Að bjóða einungis upp á birtingar í línulegri dagskrá er löngu útrunnin hugsun.“