Egill Helga­son, Arnar Björns­son og Illugi Jökuls­son eru meðal fjöl­miðla­manna sem minnast Ragn­heiðar Ástu Péturs­dóttur á Face­book en greint var frá því í gær að Ragn­heiður hafi látist, 79 ára að aldri. Hún var ein þekktasta rödd Ríkis­út­varpsins en hún starfaði þar sem þulur í 44 ár.

„Ég kynntist Ragn­heiði Ástu Péturs­dóttur fyrst í sem rödd í út­varpinu. Maður áttaði sig ekki alveg á aldri fólks á þeim árum, en nú skil ég að þessi rödd sem talaði í út­varpið af slíkri festu og öryggi var bráðung kona,“ skrifar Egill Helga­son í færslu á Face­book en hann bætir við að hann hafi síðar kynnst Ragn­heiði þar sem hún var móðir vina hans.

Hann minnist þess þegar Ríkis­út­varpið hljómaði um allt land og þegar þjóðin sam­einaðist um raddirnar sem að komu úr út­varps­tækinu. „Ein af þeim var Ragn­heiður Ásta. Sá tími kemur varla aftur. Blessuð sé minning Ragn­heiðar Ástu.“

Ég kynntist Ragnheiði Ástu Pétursdóttur fyrst í sem rödd í útvarpinu. Maður áttaði sig ekki alveg á aldri fólks á þeim...

Posted by Egill Helgason on Saturday, August 1, 2020

„Gæfa Ríkis­út­varpsins að fá til verka jafn flinka og pott­þétta mann­eskju“

Illugi Jökuls­son segir enn fremur að það hafi verið „gæfa Ríkis­út­varpsins að fá til verka jafn flinka og pott­þétta mann­eskju,“ og bætir við að það hafi sömu­leiðis verið gæfa þjóðarinnar að fá að hlýða á skýrt og fal­legt mál hennar. Þá hafi það einig verið gæfa þeirra sem þekktu hana hvað hún var hlý­leg, rétt­sýn og skemmti­leg manneskja.

„Það var gæfa fjöl­skyldu hennar að njóta ástar hennar og væntum­þykju. Það var gæfa vin­kvenna minna Aggíar og Odd­rúnar að eignast hana að stjúp­móður, þótt hún hefði gaman af að kalla sig „vondu stjúpuna“. - Og það var sannar­lega mikill heiður fyrir mig sem ungan dag­skrár­gerðar­mann á sínum tíma að fá að bíða þess í stúdíóinu með hand­ritið mitt í hendinni að ekki minni manneskja en Ragn­heiður Ásta Péturs­dóttir kynnti mig til leiks.“

Það var gæfa Ríkisútvarpsins að fá til verka jafn flinka og pottþétta manneskju og Ragnheiði Ástu. Það var gæfa...

Posted by Illugi Jökulsson on Sunday, August 2, 2020

„Þá ýtir þessi elska á pásutakkann“

Arnar Björns­son í­þrótta­frétta­maður slær í svipaða strengi í Face­book hópnum Fjöl­miðla­nördar en hann lýsir Ragn­heiði sem eftir­minnan­legri og metnaðar­fullri konu. Hann rifjar upp þegar hann sat fastur í um­ferðar­teppu skömmu áður en hann átti að flytja í­þrótta­fréttir í tíu fréttum Ríkis­út­varpsins.

„Bíla­lestin fyrir framan mig silaðist á­fram og þegar ég kom á bíla­planið í Efsta­leitinu heyrði ég frétta­stefið og Ragn­heiður Ásta hóf lesturinn,“ minnist Arnar. „Rétt áður en ég “átti að fara í loftið” hljóp ég inn í hljóð­verið, Ragn­heiður Ásta ýtti á pásutakkann, heilsaði mér og kynnti að nú væri komið að í­þrótta­fréttum. Eg var laf­móður, and­stuttur og kom vart út úr mér heilli setningu.“

„Þá ýtir þessi elska á pásutakkann og segir mér að draga andann og segir að það liggi ekkert á, nægur sé tíminn. Ein­hvern veginn böðlaðist ég í gegnum þetta með dyggri leið­sögn Ragn­heiðar Ástu. Okkur var vel til vina og ég minnist hennar með hlý­hug. Fjöl­skyldu hennar sendi ég sam­úðar­kveðjur,“ skrifar Arnar.

Ólst upp hjá Ríkisútvarpinu

Líkt og áður hefur komið fram starfaði Ragn­heiður hjá Ríkis­út­varpinu í 44 ár áður en hún lét af störfum árið 2006. Faðir Ragn­heiðar, Pétur Péturs­son, var sömu­leiðis þulur og sagðist Ragn­heiður nánast hafa alist upp hjá Ríkis­út­varpinu þegar hún rak sögu sína áður en hún bauð sig fram í borgar­stjórnar­kosningum fyrir Sósíal­ista­flokkinn í Reykja­vík árið 2018.

Þá var maður hennar, Jón Múli Árna­son heitinn, einnig þulur en saman áttu þau eina dóttur, hana Sól­veigu Önnu Jóns­dóttur, sem er í dag for­maður Eflingar. Hún átti einnig þrjú börn frá fyrra hjóna­bandi, Pétur Gunnars­son, blaða­mann, sem er nú látinn, Ey­þór Gunnars­son, tón­listar­mann, og Birnu Gunnars­dóttur, verk­efnis­stjóra hjá Há­skóla Ís­lands.