Cheng Li, áströlsk fjöl­miðla­kona sem starfaði áður sem frétta­þulur fyrir kín­verska ríki­smiðilinn CGTN, hefur nú verið form­lega hand­tekin vegna gruns um njósnir en Cheng hefur verið í haldi lög­reglu í Kína frá því í ágúst 2020.

Utan­ríkis­ráð­herra Ástralíu, Ma­risa Payne, greindi frá því fyrr í dag að Cheng hafi verið form­lega hand­tekin þann 5. febrúar síðast­liðinn vegna gruns um að hún hafi lekið ríkis­leyndar­málum.

„Áströlsk stjórn­völd hafa reglu­lega gert al­var­legar at­huga­semdir við varð­hald Cheng,“ sagði Payne um málið. Þau hafa meðal annars gert at­huga­semdir við heilsu Cheng og varð­halds­vist hennar en ræðis­menn Ástralíu í Kína hafa reglu­lega heim­sótt Cheng, nú síðast í lok janúar.

Í haldi í rúma sex mánuði

Fjöl­skyldu­með­limir Cheng segjast í sam­tali við ABC News ekki vita af hverju hún er í haldi en þau segja að hún hafi verið lokuð inni í glugga­lausum klefa síðast­liðna sex mánuði. Þá hafi hún verið í haldi án þess að vera á­kærð og hefur ekki fengið að ræða við lög­fræðing.

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið hafa sam­skipti milli Ástralíu og Kína versnað til muna síðast­liðna mánuði, ekki síst eftir að áströlsk yfir­völd kölluðu eftir því að upp­tök kóróna­veirufar­aldursins í Kína yrðu rann­sökuð en Kín­verjar beittu í kjöl­farið Ástrali refsi­að­gerðum.

Skömmu eftir að Cheng var hand­tekin þann 13. ágúst síðast­liðinn flúðu tveir ástralskir blaða­menn Kína eftir að yfir­völd reyndu að yfir­heyra þá á grund­velli þjóðar­öryggis. Eins og staðan er í dag eru engir ástralskir blaða­menn starfandi í Kína og er það í fyrsta sinn sem það gerist í 50 ár.