Stephanie Grisham verður nýr fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins en hún tekur við stöðunni af Sarah Sanders, sem tilkynnti fyrr í mánuðinum að hún hygðist láta af störfum.

Forsetafrúin, Melania Trump, greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni en Grisham þessi hefur sinnt starfi fjölmiðlafulltrúa Melaniu og hefur unnið fyrir Trump-fjölskylduna frá árinu 2015.

„Mér dettur ekki í hug betri manneskja til að þjóna embættinu og þjóðinni,“ skrifaði forsetafrúin á Twitter. CNN greinir frá því að Grisham muni fylgja Donald Trump í opinbert ferðalag hans til Japan og Kóreu í vikunni.