Mótmælin fóru að langmestu leyti friðsamlega fram í gær.

Tug þúsundir einstaklinga komu saman í Washington D.C. í fjölmennustu mótmælum borgarinnar til þessa. Fólk safnaðist saman við Lincoln-minnisvarðann og gekk að Hvíta húsinu en hið nýja torg sem borgarstjóri Washington hefur nefnt „Svört líf skipta máli-torgið" var einnig miðpunktur mótmælanna í gær. Öryggisverðir lokuðu fyrir alla aðkomu að Hvíta húsinu.

Muriel Bowser, borgarstjóri Washington tók á móti mótmælendum og sagði að þau væru að gefa Donald Trump skýr skilaboð.

„Ef hann getur tekið yfir Washington DC, þá getur hann komist yfir öll önnur fylki og ekkert okkar verður öruggt," sagði Bowser.

Á mánudaginn skipaði Trump alríkislögreglumenn til að beita táragasi á mótmælendur í Washington sem biðu hans fyrir utan kirkju.

„Lögreglumenn í þessu landi eiga ekki að þola slíka framkomu, að þurfa að ráðast á ameríska ríkisborgara,“ bætti Bowser við.

Trump sagði á Twitter aðgangi sínum að mótmælin hafi verið fámennari en hann hafi búist við og þakkaði lögreglu fyrir vel unnin störf.

Þá fóru einnig fram fjölmenn mótmæli í New York, San Fransisco, L.A. og Chicago.

Starfsháttum lögreglu breytt

Nokkur ríki í Bandaríkjunum hafa ákveðið að breyta starfsháttum lögreglu. Borgarstjóri í Seattle hefur bannað lögreglu að nota táragas gegn mótmælendum. Ríkisstjóri Kaliforníu hefur skipað lögreglunni að aðferðin sem varð Floyd að bana verði ekki kennd lengur. Þá hafa yfirvöld í Minneapolis tilkynnt að kyrkingatak lögreglu væri nú bannað.

Fjölmennustu mótmælin í Washington-borg til þessa
AFP

Mótmæli fóru fram víða

Mótmæli gegn kynþáttafordómum fóru einnig fram utan Bandaríkjanna. Í Bretlandi kom fjöldi fólks saman á þingtorgi í miðborg London þrátt fyrir ákall stjórnvalda um að forðast fjöldasamkomur vegna kórónaveirunnar.

Í Ástralíu fóru mótmæli fram í Sydney, Melbourne og Brisbane og lögðu mótmælendur áherslu á meðferð frumbyggja Ástralíu.

Einnig voru mótmæli í Frakklandi, Þýskalandi og á Spáni.

REUTERS

BBC