Reykjavík Open, alþjóðlegt briddsmót, hefst í Hörpu í dag. Langt er síðan eins margir hafa tekið þátt í briddsmóti hérlendis. Keppendur koma frá ýmsum heimshornum.

Fjöldi þátttakenda verður alls á áttunda hundrað samkvæmt forskráningu. Kvennasveit Hjördísar Eyþórsdóttur heimsmeistara og atvinnumanns í bridds sem býr í Bandaríkjunum er meðal þátttakenda. Í sveitinni er meðal annars nýbakaður Bandaríkjameistari í ungmennaflokki.

Að sögn Matthíasar Imsland, framkvæmdastjóra Bridgesambands Íslands, er mótið eitt stærsta briddsmót sem haldið hefur verið á Íslandi og það fjölmennasta um árabil.

Mótið hefst klukkan 19 í kvöld og lýkur síðdegis á sunnudag. Fyrstu tvo dagana fer keppni fram í tvímenningi en síðari tvo dagana verður spiluð sveitakeppni.