Þjóðhátíð í Eyjum verður formlega sett í fyrsta skipti í tvö ár á hádegi í dag en fyrsti atburður hennar, Húkkaraballið, fór fram í gærkvöldi. Að sögn Hörðs Orra Grettissonar, formanns Þjóðhátíðarnefndar ÍBV var vel mætt á ballið.

„Þeir sem þekkja til þar segja að þetta hafi örugglega verið fjölmennasta Húkkaraballið hingað til og gríðarlega mikið fólk á svæðinu og ballinu,“ segir Hörður sem segir ballið hafi einnig farið vel fram

„Bara mikil ánægja og gleði í fólki og gott veður og þá helst þetta allt í hendur og úr verður eitthvað mjög gott.“

Stefnir í bestu þjóðhátið sögunnar

Undirbúningur hátíðarinnar hefur gengið smurt fyrir sig en Hörður segir að mörg handtök komi saman til að setja upp svona hátíð.

„Þetta er náttúrulega heljarinnar undirbúningur og krefjandi að taka á móti svona mörgu fólki“ segir Hörður og bætir við „núna er það bara framkvæmdin sem er eftir en hún er ekki síður mikilvæg en undirbúningurinn. Við bindum miklar vonir við að þetta verði ein besta Þjóðhátíð sögunnar eftir langa bið.“

Miðasala fór vel af stað

Miðasala hefur gengið mjög vel að sögn Harðar „Forsalan hefur verið mjög sannfærandi og við búumst við stórri hátíð“ segir Hörður en hann segir of snemmt að segja hvort met verði slegið á sunnudaginn.

„Við vitum það ekki en ég hugsa að veðurspáin og veðrið sé kláralega að hjálpa í því og maður finnur núna á síðustu klukkutímunum hvað miðasalan hefur aukist og fólk er að reyna að ná sér í síðustu miðana sem eru lausir í Herjólf. Þannig að þetta verður stórt en svo verður bara að koma í ljós hversu stórt þetta verður,“ segir Hörður en mikil spenna er núna í eujunni enda margir sem hafa beðið lengi eftir þessu augnabliki.

„Ég held að það sé mikil eftirvænting í fólki hvort sem það eru við Eyjamenn eða þeir gestir sem ætla að heimsækja okkur um helgina. Maður sér það bara alls staðar á öllum að fólk er spennt,“ segir Hörður.