Keilir brautskráði 185 nemendur við hátíðlega athöfn síðasta föstudag en um er að ræða fjölmennustu útskrift skólans frá upphafi. Fyrsta útskrift Keilis fór fram sumarið 2008 en síðan hafa samtals 3.522 nemendur lokið námi við skólann.

Við athöfnina, sem fór fram í Andrews leikhúsinu á Ásbrú, brautskráðust nemendur úr Háskólabrú, Íþróttaakademíu og Flugakademíu. Þá var þetta síðasta útskrift Hjálmars Árnasonar, sem hefur verið framkvæmdastjóri Keilis frá árinu 2009.

Um er að ræða fjölmennustu brautskráningu nemenda frá stofnun skólans.

Nærri tvö þúsund nemendur útskrifast af Háskólabrú frá upphafi

Háskólabrú Keilis brautskráði 93 nemendur úr þremur deildum skólans. 138 nemendur Háskólabrúar hafa nú lokið námi það sem af er ársins en í ágúst bættist við útskriftarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans.

Dúx Háskólabrúar var Guðrún Edda Haraldsdóttir sem útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,64. Þá fékk Ögn Þórarinsdóttir menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautseigju.

Með útskriftinni hafa samtals 1.839 nemendur lokið Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Þá hefur verið stöðug aukning í námið á undanförnum árum. Nemendur geta valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu, en námið veitir aðgang að flest öllu námi í háskólum.

Þetta var síðasta útskrift Hjálmars Árnasonar, sem hefur verið framkvæmdastjóri Keilis frá árinu 2009.

Fyrsta útskrift eftir sameiningu flugskólanna

Flugakademía Keilis útskrifaði í ár 43 atvinnuflugnema og hafa þá samtals 71 atvinnuflugnemar útskrifast úr skólanum það sem af er ársins. Dúx flugakademíunnar var Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir með 9,54 í meðaleinkunn.

Þetta var fyrsta brautskráning atvinnuflugnema Keilis eftir að skólinn sameinaðist Flugskóla Íslands fyrr á árinu. Með sameiningunni varð skólinn einn stærsti flugskóli á Norðurlöndum, með rúmlega tuttugu kennsluvélar og á fjórða hundrað flugnemendur.

Samtals hafa 289 nemendur lokið atvinnuflugmannsnámi hjá Keili frá upphafi. Með útskrift Flugskóla Íslands, sem fór fram í lok maí, hafa samtals 126 atvinnuflugnemar lokið bóklegu námi á Íslandi það sem af er ársins.

Mikil tækifæri hjá leiðsögumönnum í ævintýraferðamennsku

Íþróttaakademía Keilis og Thompson Rivers University í Kanada brautskráðu níu nemendur úr leiðsögunámi í svokallaðri ævintýraferðamennsku. Námið hefur vakið athygli bæði meðal íslenskra og erlendra nemenda og hafa samtals 85 nemendur af hátt í tuttugu þjóðernum útskrifast á undanförnum árum.

Hjördís Björnsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 9,08 í meðaleinkunn.