„Við mótmælum brottvísunum barna á flótta“ er yfirskrift mótmæla sem hófust síðdegis í dag. Fjöldi fólks var samankominn við Hallgrímskirkju til að, eins og nafnið gefur til kynna, mótmæla brottvísunum barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.

Íslensk yfirvöld hafa það sem af er ári synjað 75 börnum um alþjóðlega vernd að því er fram kemur á síðu viðburðarins á Facebook. Mál Safari og Sarwary-fjölskyldnanna, sem koma frá Afganistan og til stendur að vísa úr landi, hafa verið talsvert til umfjöllunar.

Mótmælin voru skipulögð af No Borders Iceland og Solaris - hjálparsamtökum fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Gengið var frá Hallgrímskirkju og niður á Austurvöll þar sem fluttar voru ræður. Meðal þeirra sem ávörpuðu samkomuna var Asadullah Sawary, faðir tveggja drengja, átta og tíu ára, sem fengið hafa þau skilaboð að þeim verði vísað úr landi von bráðar.

„Börnin mín hafa verið hér í ár og eru hamingjusöm,“ sagði Asadullah. „Í dag er einn besti dagur lífs míns því ég sé stuðning Íslendinga.“

Zainab Safari, fjórtán ára stúlka sem stendur til að vísa úr landi ásamt móður hennar og tólf ára bróður, ávarpaði samkomuna einnig en hún þakkaði Íslendingum fyrir stuðninginn.

„Ég bjóst ekki við svona mörgum. Það eru svona milljónir hér. Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ er meðal þess sem Zainab sagði.

Ljósmyndari Fréttablaðsins var viðstaddur mótmælin og tók myndirnar sem hér fylgja.

Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli
Fréttablaðið/Valli