Nokkur fjöldi fólks, einkum há­skóla­stúdentar, söfnuðust saman í gær við tvo há­skóla í Teheran, til að tjá reiði sína vegna á­rásar á far­þega­þotuna og við­bragða stjórn­valda við þeim hörmungar­at­burði. Mót­mælendur segja æðstu ráða­menn landsins beita lygum og blekkingum. Á­ætlað er að um helmingur þeirra sem fórust með vélinni hafi verið Íranir, flestir þeirra há­skóla­stúdentar. Minningar­sam­komur um hin látnu voru haldnar við há­skólana Amir Kabir og Sharif í Teheran. Þær þróuðust síðan út í mót­mæla­fundi.

Í nóvember­mánuði voru mót­mæli víða um landið. Þeim var beint gegn stjórn­völdum og versnandi efna­hag. Mann­réttinda­sam­tökin Am­ne­sty International segja að þá hafi 208 mót­mælendur farist, mörg þúsund manna hafi særst og allt að 7.000 mót­mælendur verið hand­teknir.

Margt bendir til þess að íranska ríkis­stjórnin hafi á síðustu vikum mis­reiknað sig á þrjá vegu og skilið æðsta­klerk Írans, Aya­tollah Ali Khamenei, í mun veikari stöðu.

Í fyrsta lagi voru mót­mæli þau sem voru við hið víg­girta sendi­ráð Banda­ríkjanna í Bagdad, höfuð­borg Íraks, á síðasta degi ársins. Þar réðst æstur múgur að sendi­ráðinu og krafðist „Dauða yfir Ameríku“. Mót­mælin eru talin hafa verið skipu­lögð að undir­lagi Írans. Banda­ríkja­for­seti Donald Trump lýsti á­byrgðinni á hendur Íran.

Þremur dögum síðar misstu Íranir einn af valda­mesta hers­höfðingja landsins þegar Banda­ríkin drápu Qa­sem So­leimani í dróna­á­rás.

Íran lofaði þá „öflugum hefndum“ eftir dróna­á­rásina. Það var gert með eld­flaugar­ás Írana á íraska her­flug­stöð norður af Bagdad þar sem her­lið Banda­ríkja­hers hefur haft að­setur. Talið er að fjórir íraskir her­menn hafi slasast og enginn Banda­ríkja­maður. Trump for­seti sagði þá að Íran virtist ætla að draga úr spennunni milli landanna.

Um helgina viður­kenndi Írans­her síðan að hafa grandað úkraínskri far­þega­þotu við Teheran með 176 manns innan­borðs. Herinn segir þetta hafa verið ó­vilja­verk sem rekja megi til mann­legra mis­taka.

Undir­liggjandi er síðan afar bág­borinn efna­hagur Írans, þrátt fyrir mikinn olíu­út­flutning, meðal annars vegna mikilla þvingunar­að­gerða Banda­ríkjanna. Efna­hags­lífið batnaði mjög þegar Íran gerðist aðili að kjarn­orku­samningi árið 2015. En í kjöl­far þess að Banda­ríkin sögðu sig frá sam­komu­laginu árið 2018 og settu aftur á þvingunar­að­gerðir hefur efna­hagur landsins orðið æ verri.

Lands­fram­leiðsla Írans dróst saman um 4,8 prósent árið 2018. Enn dró úr efna­hag landsins á síðasta ári, en þá er á­ætlað að lands­fram­leiðsla hafi verið nei­kvæð um 9,5 prósent, sam­kvæmt upp­lýsingum Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðsins. Fyrir árið 2020 reiknar sjóðurinn með að íranska hag­kerfið muni ná meiri stöðug­leika. Eftir að þessi spá sjóðsins var birt í októ­ber hefur stjórn­mála- og öryggis­á­stand landsins versnað mjög og enn herða Banda­ríkin á þvingunar­að­gerðum sínum.