Fjölmargir voru mættir á Austurvöll í dag til að mótmæla heimsókn varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, hingað til lands. Hinsegin fólk og hernaðarandstæðingar voru mest áberandi á mótmælafundinum.

Pence er ekki velkominn hjá öllum. Hinsegin fólk fjölmennti á mótmælin í dag.

Fundurinn, sem bar yfirskriftina „Partý gegn Pence“, hófst klukkan 17:30 og stóð í rúman klukkutíma. Á honum voru flutt fimm ávörp en ræðumennirnir voru þau Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, María Helga Guðmundsdóttir fv. formaður Samtakanna 78, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og umhverfisverndarsinni, Randi Stebbins mannréttindalögfræðingur og Isabella Rivera innflytjandi frá Bandaríkjunum og aktívisti hjá No Borders.

Í lýsingu á viðburði mótmælanna á Facebook kemur fram að verið sé að mótmæla stjórnmálastefnu Pence og stjórnarinnar í Hvíta húsinu, sem mörgum Íslendingum virðist misbjóða. Nánar tiltekið er verið að mótmæla stefnu stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinsegin fólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk.

Friður og frelsi. Mótmælendur voru skýrir í afstöðu sinni í dag.

Ætla má að nokkur hundruð manns hafi verið saman komin á Austurvelli en eins og greint hefur verið frá í dag var einnig nokkuð um mótmæli við Höfða í dag við komu Pence þangað. Þá drógu margir regnbogafána hinsegin fólks á hún til að sýna samkynhneigðum samstöðu sína. Pence er hefur til dæmis látið þau orð falla að Guðs vilji sé að koma í veg fyrir samkynhneigð hjónabönd og sagt þau slæm fyrir samfélagið.

Þá voru forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid bæði með regnbogaarmbandið á sér á fundi sínum með Pence í dag.

Pence er meðal annars hingað kominn til að ræða hersetu Bandaríkjahers á Íslandi.