Lög­reglan í Frakk­landi hefur nú gert inn­rás í húsa­kynni þó nokkra ein­stak­linga í kjöl­far þess sem kennarinn Samuel Paty var myrtur. Að því er kemur fram í frétt BBC eru ein­staklingarnir grunaðir eru um tengsl við hryðju­verka­sam­tök og er talið að sumir þeirra hafi lýst yfir stuðningi við morðingja Paty.

Líkt og áður hefur verið greint frá var Paty, sem var sögu­kennari, myrtur á hrotta­legan hátt í út­hverfi Parísar síðast­liðinn föstu­dag. Maður vopnaður stórum hníf hafði þá ráðist á kennarann og af­höfðað hann eftir að hann hafði beðið nem­endur um að­stoð við að bera kennsl á Paty. Eftir verknaðinn hað­fi hann birt myndir á sam­fé­lags­miðlum og játað að hafa myrt Paty.

Viðamikil rannsókn

Morðingi Paty var skotinn til bana af lög­reglu skömmu eftir verknaðinn og hafa 11 manns til við­bótar verið hand­teknir í tengslum við málið. Lög­regla mun á næstu dögum yfir­heyra um það bil 80 manns sem talið er að hafi lýst yfir stuðningi við morðingjann. Þá hafa yfir­völd nú til rann­sóknar rúm­lega 50 sam­tök franskra múslima.

Innan­ríkis­ráð­herra Frakk­lands, Gerard Darmanin, sagði rann­sóknina gefa út þau skila­boð að „ó­vinum lýð­veldisins yrði ekki veitt nein hvíld,“ en ef í ljós kemur að ein­hver sam­tök ýti undir hatur verður þeim gert að hætta starf­semi. Þeir sem er nú verið að rann­saka tengjast þó ekki endi­lega morðinu á Paty.

Minnast Paty

Frakk­lands­for­seti greindi frá því fyrir helgi að málið væri rann­sakað sem hryðju­verk. Tíu dögum fyrir morðið hafði Paty rætt við fram­halds­skóla­nem­endur sína um skop­myndir af spá­manninum Múhameð, sem hluti af tíma um tjáningar­frelsi, en hann fékk í kjöl­farið hótanir og kvartanir frá for­eldrum vegna málsins.

Minningarathöfn fyrir Paty fer fram á miðvikudaginn en í gær safnaðist fjöldi fólks saman í París og víðar í landinu til heiðurs Paty. Um klukkan 15 á staðartíma höfðu þúsundir manna safnast saman við og við Place de la République í París þar sem þjóðsöngur landsins var spilaður.

Tvær hryðjuverkaárásir á skömmum tíma

Birting skop­mynda af Múhameð hafa verið sér­stak­lega mikið hita­mál í Frakk­landi eftir að tíma­ritið Charli­e Hebdo birti slíkar myndir árið 2015. Tólf manns voru skotnir til bana af tveimur bræðrum sem kenndu sig við íslamska ríkið en réttar­höld í máli 14 aðila sem eru sakaðir um aðild að á­rásinni hófust í síðasta mánuði.

Tíma­ritið á­kvað að birta myndirnar á ný í til­efni réttar­haldanna en önnur árás var framin við fyrrum höfuð­stöðvar tíma­ritsins í lok septem­ber og sagði á­rásar­maðurinn að hann væri reiður vegna endur­birtingar skop­myndanna. Enginn lést í þeirri árás en tveir særðust al­var­lega.