Stór hluti Seyð­firðinga fékk að fara aftur til síns heima á þriðja tímanum í dag en alls ekki allir. Þeir í­búar bæjarins sem búa á skil­greindu hættu­svæði söfnuðust í staðinn saman í fjölda­hjálpamið­stöðinni í Egils­staða­skóla en Rauði Krossinn hefur þar boðið upp á mat og að­stöðu síðustu daga.

Flest­allir virtust bera sig vel er fólk sat og spjallaði saman í mat­sal skólans. Það er hins vegar ó­mögu­legt annað en að ætla að síðustu dagar hafa tekið á. Börn heimamanna virtust þó ekkert of áhyggjufull yfir stöðu mála og hlupu um og léku sér í dag.

Stórar aur­skriður hafa valdið mikilli eyðileggingu á Seyðisfirði síðustu daga og hafa margir misst heimili sín. Hópurinn sem sat eftir í Egilsstaðaskóla í kvöld veit ekki hvenær það verður óhætt að snúa aftur heim.

Í þeim hópi er meðal annars Odd­ný Björk Daníels­dóttir sem Fréttablaðið ræddi við fyrr í kvöld en hún, eiginmaður hennar og fimm ára gömul dóttir þeirra búa á hættu­svæðinu á Seyðis­firði. Oddný upp­lifir sig ekki lengur örugga á Seyðis­firði en dóttir þeirra hjóna á það til að leika sér í fjalls­hlíðinni. Fjölskyldan veit ekki hvenær þau mega fara aftur heim en býst ekki við því fyrr en á nýju ári.

Þeir sem búa ekki á hættusvæðui keyrðu af stað heim til sín á Seyðisfjörð um þrjú í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Við viljum endi­lega að fólk eigi at­hvarf hér“

Margrét Dögg Guð­bjarts­dóttir Hjarðar, sjálf­boða­liði hjá Rauða Krossinum, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að á svona tímum sé mikil­vægt fyrir fólk að hittast og tala saman.

Rauði krossinn hefur verið með þrjár vaktir með um sex sjálf­boða­liðum á hverri vakt og boðið Seyð­firðingum m.a. upp á þrjár mál­tíðir á dag á­samt sál­fræði­að­stoð.

„Þar fyrir utan er við­bragð­steymið sem er að sinna sál­fræði­legum stuðning hjá á­falla­hjálpinni, þær hafa verið svona fjórar til sex í einu. En svo kemur líka bara fólk og býður fram að­stoð sína,“ segir Margrét og bætir við að Rauði Krossinn þiggi það með þökkum.

Margrét Dögg Guðbjartsdóttir Hjarðar, sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum í Egilsstaðaskóla í kvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink

Margrét segir að fólk hafi sótt sér­stak­lega mikið í á­falla­hjálpina í gær en mikil eyði­legging fylgdi seinni aur­skriðunni.

„En svo er þetta líka bara að eiga þetta sam­tal. Fólk þarft stundum bara að­eins að fá að tala. Á­falla­hjálpin var líka svo­lítið fólgin í því í gær að koma hér og hittast. Bara það að sjá ná­granna sinn getur verið á­kveðin á­falla­hjálp,“ segir Margrét.

Hún segir að að­stoðin hafi verið mjög vel sótt af Seyðisi­firðingum. „Sem betur fer, því við viljum endi­lega að fólk eigi at­hvarf hér,“ segir Margrét.

Rauða Kross deild Múla­sýslu hefur fengið um 300. 000 krónur í styrk frá ein­stak­lingum eftir ham­fararnir á Seyðis­firði, að sögn Margrétar.

„Svo eru starfs­manna­fé­lög og fyrir­tæki búin að hafa sam­band við okkur þannig það er búið að safnast heil­mikið og það er al­gjör­lega eyrna­merkt í þetta hjálpar­starf og ekki bara fyrir Seyðis­fjörð heldur líka ef það hefði komið eitt­hvað fyrir á Eski­firði.“