Stór hluti Seyðfirðinga fékk að fara aftur til síns heima á þriðja tímanum í dag en alls ekki allir. Þeir íbúar bæjarins sem búa á skilgreindu hættusvæði söfnuðust í staðinn saman í fjöldahjálpamiðstöðinni í Egilsstaðaskóla en Rauði Krossinn hefur þar boðið upp á mat og aðstöðu síðustu daga.
Flestallir virtust bera sig vel er fólk sat og spjallaði saman í matsal skólans. Það er hins vegar ómögulegt annað en að ætla að síðustu dagar hafa tekið á. Börn heimamanna virtust þó ekkert of áhyggjufull yfir stöðu mála og hlupu um og léku sér í dag.
Stórar aurskriður hafa valdið mikilli eyðileggingu á Seyðisfirði síðustu daga og hafa margir misst heimili sín. Hópurinn sem sat eftir í Egilsstaðaskóla í kvöld veit ekki hvenær það verður óhætt að snúa aftur heim.
Í þeim hópi er meðal annars Oddný Björk Daníelsdóttir sem Fréttablaðið ræddi við fyrr í kvöld en hún, eiginmaður hennar og fimm ára gömul dóttir þeirra búa á hættusvæðinu á Seyðisfirði. Oddný upplifir sig ekki lengur örugga á Seyðisfirði en dóttir þeirra hjóna á það til að leika sér í fjallshlíðinni. Fjölskyldan veit ekki hvenær þau mega fara aftur heim en býst ekki við því fyrr en á nýju ári.

„Við viljum endilega að fólk eigi athvarf hér“
Margrét Dögg Guðbjartsdóttir Hjarðar, sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum, segir í samtali við Fréttablaðið að á svona tímum sé mikilvægt fyrir fólk að hittast og tala saman.
Rauði krossinn hefur verið með þrjár vaktir með um sex sjálfboðaliðum á hverri vakt og boðið Seyðfirðingum m.a. upp á þrjár máltíðir á dag ásamt sálfræðiaðstoð.
„Þar fyrir utan er viðbragðsteymið sem er að sinna sálfræðilegum stuðning hjá áfallahjálpinni, þær hafa verið svona fjórar til sex í einu. En svo kemur líka bara fólk og býður fram aðstoð sína,“ segir Margrét og bætir við að Rauði Krossinn þiggi það með þökkum.

Margrét segir að fólk hafi sótt sérstaklega mikið í áfallahjálpina í gær en mikil eyðilegging fylgdi seinni aurskriðunni.
„En svo er þetta líka bara að eiga þetta samtal. Fólk þarft stundum bara aðeins að fá að tala. Áfallahjálpin var líka svolítið fólgin í því í gær að koma hér og hittast. Bara það að sjá nágranna sinn getur verið ákveðin áfallahjálp,“ segir Margrét.
Hún segir að aðstoðin hafi verið mjög vel sótt af Seyðisifirðingum. „Sem betur fer, því við viljum endilega að fólk eigi athvarf hér,“ segir Margrét.
Rauða Kross deild Múlasýslu hefur fengið um 300. 000 krónur í styrk frá einstaklingum eftir hamfararnir á Seyðisfirði, að sögn Margrétar.
„Svo eru starfsmannafélög og fyrirtæki búin að hafa samband við okkur þannig það er búið að safnast heilmikið og það er algjörlega eyrnamerkt í þetta hjálparstarf og ekki bara fyrir Seyðisfjörð heldur líka ef það hefði komið eitthvað fyrir á Eskifirði.“