Rúm 44 prósent þeirra sem taka afstöðu segja að útbreiðsla kórónafaraldursins hafi mjög eða frekar mikil áhrif á ferðalög sín til útlanda á næstu mánuðum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið.

Tæp 18 prósent segja að útbreiðsla veirunnar hafi hvorki mikil né lítil áhrif á ferðaplönin og tæp 38 prósent telja útbreiðsluna hafa mjög eða frekar lítil áhrif.

Frá því að fyrsta tilfelli um smit var staðfest hér síðastliðinn föstudag, hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Í gær voru tilfellin orðin tuttugu og sex, en allir þeir einstaklingar smituðust erlendis.

Embætti landlæknis ræður fólki frá ferðalögum til svæða sem skilgreind eru með mikla smithættu. Þessi svæði eru Kína, Ítalía, Suður-Kórea og Íran. Þá eru einstaklingar sem koma frá þessum svæðum beðnir um að vera í sóttkví í 14 daga frá heimkomu.

Fleiri konur en karlar segja útbreiðslu kórónaveirunnar hafa áhrif á ferðalög. Þannig segja rúm 48 prósent kvenna útbreiðsluna hafa mikil áhrif, en rúmt 41 prósent karla. Tæp 40 prósent karla segja útbreiðsluna hafa lítil áhrif á ferðalög, en tæp 36 prósent kvenna.

Hér er aðeins miðað við þá sem tóku afstöðu, en tæp 22 prósent sögðust engin plön hafa um ferðalög.

Aldurshópurinn 65 ára og eldri er mun líklegri til að svara því að útbreiðsla veirunnar hafi áhrif á ferðalög, en þeir sem yngri eru. Tæp 52 prósent í þessum aldurshópi segja útbreiðslu veirunnar hafa mikil áhrif á ferðalög en tæp 32 prósent lítil áhrif. Minnstra áhrifa á ferðalög gætir í aldurshópnum 25-34 ára. Þar segja rúm 47 prósent að veiran hafi lítil áhrif á ferðalög en rúm 38 prósent að þau hafi mikil áhrif.

Ekki reyndist marktækur munur á svörum íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þá hefur útbreiðsla veirunnar meiri áhrif á ferðaplön þeirra sem hafa lægri tekjur en 400 þúsund á mánuði en þeirra sem hafa hærri tekjur.

Athygli vekur að veiran er mun líklegri til að hafa áhrif á ferðaplön þeirra sem eru með þrjú eða fleiri börn á heimili en annarra hópa. Í þessum hópi segja um 59 prósent að áhrifin verði mikil en hjá öðrum er hlutfallið í kringum 43 prósent.

Ef litið er til stuðnings við stjórnmálaflokka reynast áhrif veirunnar hafa mest áhrif á ferðaplön stuðningsfólks Flokks fólksins. Rúm sextíu prósent segja áhrifin mikil en tæp 22 prósent lítil.

Áhrifin eru hins vegar minnst á stuðningsfólk Pírata og Vinstri grænna. Þannig segja þrjátíu prósent stuðningsfólks þessara flokka að áhrifin verði mikil. Tæpt 51 prósent Pírata og tæp 45 prósent Vinstri grænna telja áhrifin verða lítil.

Könnun Zenter, sem er netkönnun, var gerð á tímabilinu 28. febrúar – 4. mars. Í úrtaki voru 2.300 manns 18 ára og eldri en svarhlutfall var 56 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.