Stofur fyrir tæplega 500 nemendur Háskóla Íslands verða ónothæfar fram á haust vegna vatnslekans mikla aðfaranótt fimmtudags. Mun námið færast yfir á rafrænt form til að byrja með. Kennslustofurnar sem um ræðir eru á Háskólatorgi, en Gimli er einnig ónothæfur um tíma. Kennsla mun geta haldið áfram í Árnagarði, Lögbergi og öðrum húsum sem flæddi inn í.

Björn Auðunn Magnússon, deildarstjóri reksturs fasteigna háskólans, segir hreinsunarstarfið hafa gengið mjög vel og að allir séu að leggja sig fram við verkið. Verið er að rífa upp teppi, bora í veggi og þurrka. Öllu vatni sem ekki er inni í veggjum og gólfum hefur verið veitt úr byggingunum.

„Starfsfólkið sem hafði aðstöðu í Gimli hefur verið fært tímabundið út í Odda. Nú er verið að funda um hvert fólk verður flutt,“ segir Björn. Er þetta starfsfólk Félagsvísindasviðsins og Félagsvísindastofnunar. Nú sé unnið að því að koma rafmagni og hita á Gimli, til að efri hæðirnar verði aftur nothæfar. „Það á eftir að koma almennilega í ljós hversu stór hluti Gimlis verður nothæfur.“

Fimm stofur á Háskólatorgi eru ónothæfar. Tvær 120 manna stofur, tvær 100 manna og ein 40 manna. Samanlagt stofurými fyrir 480 nemendur. „Það verður ekki kennt í þeim á þessari önn,“ segir Björn.

Aðspurður um hvenær viðgerðum á húsunum ljúki, gerir Björn ráð fyrir því að það verði næsta haust. Skipta þurfi meðal annars um húsgögn, innréttingar, fundarbúnað og annan rafbúnað. „Vatnsleki er það versta sem kemur fyrir raftæki. Það fóru ekki allar stofur á bólakaf, en tenglarnir eru í gólfunum og þess vegna sló öllu út,“ segir hann.

Talið hefur verið að tjónið hlaupi á hundruðum milljóna króna og óvíst hversu mikið fæst bætt með tryggingum. Matsmenn skoða nú byggingarnar til þess að meta tjónið en enn liggur engin föst tala fyrir.

Í útvarpsviðtali Bylgjunnar við Böðvar Inga Guðbjartsson, formann Félags pípulagningameistara, sagði hann að upplagt hefði verið að vatnsskynjarar væru til staðar. En þeir skynjarar nema vatn og stöðva þá inntakið ef vatnið fer yfir mörk.

„Auðvitað eru vatnsskynjarar í húsunum,“ segir Björn. „Það er ekkert sem springur inni heldur er þetta utanaðkomandi vatn.“ Segir hann skynjarana sem voru til staðar ekki hafa stöðvað lekann. Viðbragðið hafi verið fljótt og hann sjálfur fengið tilkynningu innan við tíu mínútum eftir að lekinn hófst.