Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir að mikill fjöldi stað­festra CO­VID-19 smita í gær hafi ekki komið honum á ó­vart. 92 greindust í gær og er heildar­fjöldi til­fella hér á landi kominn í 568. Ekki hafa fleiri greinst á einum ein­stökum degi síðan far­aldurinn hófst.

Þór­ólfur sagði á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna nú klukkan 14 að aug­ljóst væri að far­aldurinn væri í upp­sveiflu hér á landi en það þurfi ekki að koma á ó­vart. Hann sagði að nýjustu tölur yrðu settar inn í spá­líkan en enn væri miðað við að far­aldurinn næði há­marki í kringum miðjan apríl­mánuð. Allur undir­búningur heil­brigðis­kerfisins miðaðist við verstu spár.

Þór­ólfur sagði að frá og með morgun­deginum myndu nýjar tölur um fjölda smitaðra birtast seinna en áður, eða um klukkan 13. Hingað til hafa nýjar tölur birst um 11 leytið á vefnum Co­vid.is. Þór­ólfur sagði að þessi breyting væri gerð til að tryggja að nýjustu tölur væru inni í þeim tölum sem birtar eru.

Tólf eru á Land­spítalanum vegna CO­VID-19 og þar af er einn á gjör­gæslu­deild. Enginn er í öndunar­vél. Þór­ólfur benti á að þær að­gerðir sem gripið hefur verið til hér á landi væru að bera árangur. Ný­greindum til­fellum fjölgar hlut­falls­lega einna minnst á Ís­landi og sagði Þór­ólfur að það væri á­gætis vitnis­burður um að þær að­gerðir sem gripið hefur verið til séu að skila árangri.