Fjölgun hjúkrunar­rýma og annarra dvalar­kosta aldraðra hér á landi hefur ekki verið í neinu sam­ræmi við fjölgun í hópi þeirra það sem af er þessari öld.

Árið 2009 voru 2.518 al­menn hjúkrunar­rými á Ís­landi en voru orðin 2.716 tólf árum seinna, árið 2018. Fjölgun rýmanna á þessum tíma var því innan við 200. Þar fyrir utan eru 147 sér­hæfð hjúkrunar­rými og 833 dag­dvalar­rými á landinu.

Á sama tíma hefur fjölgað meira í hópi aldraðra en áður hefur þekkst, raunar langt um­fram fjölgun í öðrum aldurs­hópum. Frá árinu 2000 til 2020 hefur hópur 70 ára og eldri vaxið um 58 prósent á meðan lands­mönnum öllum hefur fjölgað um 30 af hundraði, hópurinn taldi 22.526 ein­stak­linga árið 2000 en 35.492 tuttugu árum síðar.

Helgi Péturs­son, for­maður Lands­sam­bands eldri borgara, segir þessa stöðu hafa verið fyrir­séða í langan tíma. „Menn bjuggu sig ekki undir þetta,“ segir hann. „Það er sam­eigin­legt verk­efni kyn­slóðanna að koma í veg fyrir að eldri kyn­slóðin leggist upp á þá yngri.“

Helgi segir þessa stöðu hafa verið fyrir­séða í langan tíma.
Fréttablaðið/Mynd úr safni

Mesta fjölgunin er í hópi 80 ára og eldri og 90 ára og eldri. Árið 2000 voru 7.471 Ís­lendingur eldri en 80 ára, en þeir voru orðnir 12.602 tuttugu árum síðar. Það er fjölgun um 69 prósent á sama tíma og þjóðinni fjölgaði alls um 30 prósent.

Í hópi 90 ára og eldri er fjölgunin 103 prósent, en yfir þeim aldri voru 2.310 manns árið 2020, saman­borið við 1.137 árið 2020.

Ljóst er af þessum tölum að öldruðum hér á landi fjölgar mun hraðar en hjúkrunar- og dag­d­valar­rýmum, en þar fyrir utan bólar ekkert á öðrum úr­ræðum sem Lands­sam­band eldri borgara kallar eftir.
Helgi telur að það þurfi milli­stig í bú­setu eldri borgara. „Í dag er það þannig að fólk býr heima hjá sér þangað til það fer í þrot og svo er það flutt á hjúkrunar­heimili. Það vantar á­fanga­stað þarna á milli.“

Sér hann fyrir sér litlar í­búðir með góðu sam­eigin­legu rými. „Ég er 72 ára og er af hippa­kyn­slóðinni, við lítum allt öðru­vísi á þetta. Við þurfum ekki dýrar 120 fer­metra þjónustu­í­búðir, við erum til í 50 fer­metra í­búðir sem eru tengdar við þjónustu­kjarna.“