Lögreglan á landsvísu fékk 1.787 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrstu níu mánuði ársins 2022. Jafngildir það að meðaltali tæplega sjö slíkum tilkynningum á dag eða 198 tilkynningum á mánuði.
Um er að ræða tæplega 12 prósent aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan og hefur fjöldi tilkynninga til lögreglunnar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila aldrei verið meiri, ef litið er til sama tímabils síðustu sjö ára.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt ríkislögreglustjóra um heimilisofbeldi. Þar er að finna helstu tölur er snúa að heimilisofbeldismálum og ágreiningsmálum milli skyldra eða tengdra einstaklinga sem koma á borð lögreglu.
Í tilkynningu um skýrsluna segir að þegar eingöngu er litið til heimilisofbeldismála, það er tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, þá voru tilvikin 832 eða 2,5 prósent fleiri en yfir sama tímabil 2021 og rúmlega 4 prósent fleiri en árið 2020 í miðjum heimsfaraldri.
Tilkynningum um ágreining milli skyldra/tengdra aðila voru 955 talsins, eða 25 prósent fleiri en yfir sama tíma í fyrra.
Karlmaður langoftast gerandi
Í 78 prósent tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og 67 prósent tilvika var brotaþoli kona. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um er að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrum maka er 80 prósent árásaraðila karlar og 78 prósent brotaþola eru konur.
Flest tilvik heimilisofbeldis, eða 64 prósent mála voru af hendi maka eða fyrrverandi maka. Málum af hendi maka eða fyrrverandi maka fækkar þó eilítið hlutfallslega og eru mál er varðar heimilisofbeldi vegna fjölskyldutengsla orðin um 30 prósent heimilisofbeldismála.
Mál er varða ofbeldi foreldris í garð barns voru að meðaltali um sex til sjö á mánuði árin 2016 til 2020 og fjölgaði aðeins í fyrra, en voru að meðaltali 11 á mánuði í ár. Þegar horft er til aldurs brotaþola er varðar heimilisofbeldi vegna fjölskyldutengsla eru um 30 prósent þeirra undir 18 ára. Um 12 prósent árásaraðila í slíkum málum eru undir 18 ára.
Grevio-skýrsla
Í tilkynningu ríkislögreglustjóra er einnig farið yfir niðurstöður fyrstu úttektar Grevio-nefndar Evrópuráðsins á eftirfylgni Íslands á Istanbúlsamningum, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi hefur verið birt.
En þar er bent á að fjöldi nálgunarbanna og brottvísana til að vernda brotaþola heimilisofbeldis, þar með talið börn hefur ekki fjölgað í samræmi við fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi. Beiðnir um nálgunarbann á Íslandi voru 91 og hefur þeim ekki fjölgað í takt við fjölgun heimilisofbeldismála. Sjaldgæft er að nálgunarbann sé sett vegna barna hér á landi.
„Úttektin bendir einnig á nauðsyn þess að setja upp kerfi til að yfirfara manndrápsmál á heimilum til að koma í veg fyrir þau í framtíðinni og leysa kerfislega annmarka á mati á áhættu. Ríkislögreglustjóri hefur haft manndrápsmál á árunum 1999 til 2020 til skoðunar. Um 37 prósent manndrápsmála á þessu tímabili eru heimilisofbeldismál, og rétt yfir fimmtungur þar sem um var að ræða maka eða fyrrverandi maka,“ segir í tilkynningu ríkislögreglustjóra og bent á að kanna þurfi vel þann möguleika að leggja heildstætt mat á þau mál sem hafa komið upp og tengjast heimilisofbeldi.