Lög­reglan á lands­vísu fékk 1.787 til­kynningar um heimilis­of­beldi og á­greining milli skyldra/tengdra aðila fyrstu níu mánuði ársins 2022. Jafn­gildir það að meðal­tali tæp­lega sjö slíkum til­kynningum á dag eða 198 til­kynningum á mánuði.

Um er að ræða tæp­lega 12 prósent aukningu saman­borið við síðustu þrjú ár þar á undan og hefur fjöldi til­kynninga til lög­reglunnar um heimilis­of­beldi og á­greining milli skyldra/tengdra aðila aldrei verið meiri, ef litið er til sama tíma­bils síðustu sjö ára.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt ríkis­lög­reglu­stjóra um heimilis­of­beldi. Þar er að finna helstu tölur er snúa að heimilis­of­beldis­málum og á­greinings­málum milli skyldra eða tengdra ein­stak­linga sem koma á borð lög­reglu.

Í til­kynningu um skýrsluna segir að þegar ein­göngu er litið til heimilis­of­beldis­mála, það er til­vika þar sem grunur er um brot á borð við líkams­á­rásir, hótanir eða eigna­spjöll, þá voru til­vikin 832 eða 2,5 prósent fleiri en yfir sama tíma­bil 2021 og rúm­lega 4 prósent fleiri en árið 2020 í miðjum heims­far­aldri.

Til­kynningum um á­greining milli skyldra/tengdra aðila voru 955 talsins, eða 25 prósent fleiri en yfir sama tíma í fyrra.

Karl­maður lang­oftast gerandi

Í 78 prósent til­vika heimilis­of­beldis var á­rása­r­aðili karl og 67 prósent til­vika var brota­þoli kona. Þegar horft er til til­vika heimilis­of­beldis þegar um er að ræða of­beldi milli maka eða fyrrum maka er 80 prósent á­rása­r­aðila karlar og 78 prósent brota­þola eru konur.

Flest til­vik heimilis­of­beldis, eða 64 prósent mála voru af hendi maka eða fyrr­verandi maka. Málum af hendi maka eða fyrr­verandi maka fækkar þó ei­lítið hlut­falls­lega og eru mál er varðar heimilis­of­beldi vegna fjöl­skyldu­tengsla orðin um 30 prósent heimilis­of­beldis­mála.

Mál er varða of­beldi for­eldris í garð barns voru að meðal­tali um sex til sjö á mánuði árin 2016 til 2020 og fjölgaði að­eins í fyrra, en voru að meðal­tali 11 á mánuði í ár. Þegar horft er til aldurs brota­þola er varðar heimilis­of­beldi vegna fjöl­skyldu­tengsla eru um 30 prósent þeirra undir 18 ára. Um 12 prósent á­rása­r­aðila í slíkum málum eru undir 18 ára.

Grevio-skýrsla

Í til­kynningu ríkis­lög­reglu­stjóra er einnig farið yfir niður­stöður fyrstu út­tektar Grevio-nefndar Evrópu­ráðsins á eftir­fylgni Ís­lands á Istanbúl­samningum, samningi Evrópu­ráðsins um for­varnir og bar­áttu gegn of­beldi á konum og heimilis­of­beldi hefur verið birt.

En þar er bent á að fjöldi nálgunar­banna og brott­vísana til að vernda brota­þola heimilis­of­beldis, þar með talið börn hefur ekki fjölgað í sam­ræmi við fjölgun til­kynninga um heimilis­of­beldi. Beiðnir um nálgunar­bann á Ís­landi voru 91 og hefur þeim ekki fjölgað í takt við fjölgun heimilis­of­beldis­mála. Sjald­gæft er að nálgunar­bann sé sett vegna barna hér á landi.

„Út­tektin bendir einnig á nauð­syn þess að setja upp kerfi til að yfir­fara mann­dráps­mál á heimilum til að koma í veg fyrir þau í fram­tíðinni og leysa kerfis­lega ann­marka á mati á á­hættu. Ríkis­lög­reglu­stjóri hefur haft mann­dráps­mál á árunum 1999 til 2020 til skoðunar. Um 37 prósent mann­dráps­mála á þessu tíma­bili eru heimilis­of­beldis­mál, og rétt yfir fimmtungur þar sem um var að ræða maka eða fyrr­verandi maka,“ segir í til­kynningu ríkis­lög­reglu­stjóra og bent á að kanna þurfi vel þann mögu­leika að leggja heild­stætt mat á þau mál sem hafa komið upp og tengjast heimilis­of­beldi.