„Við erum rosalega ánægð með að það hafi tekist að setja meira fjármagn inn í NPA-samninginn og framlengja bráðabirgðaákvæðið þannig að sveitarfélög hafi meiri tíma til þess að geta uppfyllt þessa lögbundnu þjónustu,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, um frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem samþykkt var á Alþingi í gær.

Frumvarpið tekur á þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að allt að fimmtíu manns muni geta bæst í þann hóp sem nýtir sér NPA-samning, notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk sem þarf aðstoð í daglegu lífi.

„Við erum búin að vera að berjast fyrir því að fá málaflokki fatlaðs fólks sinnt betur, en á þessu ári átti að vera búið að uppfylla 172 samninga. Það eru 95 samningar sem er búið að uppfylla nú þegar og stefnt að því að uppfylla 50 samninga til viðbótar á næsta ári. Það er mikið gleðiefni því að þetta þýðir að þeir einstaklingar sem fá þessa þjónustu munu hafa aukin tækifæri til að taka þátt í samfélaginu á allt annan hátt en áður, á sínum eigin forsendum,“ segir Þuríður Harpa.

Að sögn Þuríðar Hörpu er NPA þjónustuform sem byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf fatlaðs fólks. Markmiðið sé að tryggja mannréttindi þess á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem geri því kleift að ráða hvar og með hverjum það býr, stjórna hvernig aðstoð við það er skipulögð, hvenær og hvar hún fari fram og hver veiti hana.

„Þetta er sá mannréttindasamningur sem fatlað fólk lítur til, þá njóti það ýmissa mannréttinda sem það hefur ekki haft hér á Íslandi áður. En það má gera mikið betur á mörgum stöðum gagnvart fötluðu fólki. Fólki er til dæmis hrúgað inn á stofnanir og það er verið að gera það enn í dag, undir 67 ára aldri, vegna þess að það eru engin úrræði til staðar. En þetta nýja frumvarp er vissulega skref í rétta átt,“ segir Þuríður Harpa.

Þá hafi öðrum mikilvægum áfanga verið náð í vikunni þegar hækkun frítekjumarks örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega var samþykkt á Alþingi, en að sögn Þuríðar Hörpu hefur frítekjumarkið á þennan hóp ekki verið hækkað í lengri tíma.

„Við erum búin að benda á þetta á hverju einasta ári í fjórtán ár að það verði að hækka frítekjumarkið. Það er gríðarlegur munur á 109 þúsund krónum í dag og að vera með 200 þúsund króna frítekjumark. Þannig að það er rosalega gott að það náðist í gegn og við hvetjum stjórnvöld áfram á sömu braut,“ segir Þuríður Harpa.