Peter Kolba, formaður austurrísku neytendasamtakanna, VSV, er vonlítill um að ríkissaksóknari eða yfirvöld í Tírólhéraði rannsaki yfirhylmingu á COVID-19 á skíðasvæðunum í Iscghl og Paznauntal. Ástæðan eru sterk tengsl stjórnarflokksins Þjóðarflokksins (ÖVP) við ferðamannageirann og skíðaiðnaðinn í Tíról.

Fjölgað hefur mjög í þeim hópi sem tekur þátt í hópmálsókn gegn héraðsstjóra Tíról, tveimur bæjarstjórum og hinum voldugu skíðalyftufyrirtækjum sem starfa á svæðinu. Kæran lýtur að því að bæði yfirvöld og einkaaðilar á svæðinu hafi hylmt yfir útbreiðslu COVID-19 og þar með stefnt almannahag í hættu.

Samkvæmt Kolba hafa nú 4.500 skráð sig á listann og er hann í sambandi við fólk víðs vegar um heim. Þegar tölurnar voru síðast greindar höfðu 2.700 skráð sig og þar af einn Íslendingur, en næsta greining fer fram á föstudag. „Við erum að hafa samband við fórnarlömbin og biðja þau um að senda bréf til saksóknarans í Tíról,“ segir Kolba aðspurður um hvar málið sé statt núna. Er þetta gert til þess að skapa þrýsting á stjórnvöld svo þau bregðist við. Vonast hann þó eftir betri viðbrögðum frá ríkisstofnuninni sem hefur eftirlit með spillingu.

Þjóðarflokkurinn, sem er hægra megin við miðjuna, er langvaldamesti flokkurinn í Tíról, en er í samstarfi við flokk Græningja rétt eins og á landsvísu. Tíról er, ásamt nágrannahéraðinu Salzburg, höfuðvígi Þjóðarflokksins. Fjórðungur íbúanna starfar í ferðaþjónustu og þaðan koma mestu tekjurnar. Þrýstihópur skíðalyftufyrirtækja er voldugur og vel tengdur inn í Þjóðarflokkinn.

Eitt af þeim hótelum þar sem smit kom upp og grunur leikur á um yfirhylmingu er Hotel Europa í Innsbruck, höfuðstað Tíról. Aðeins viku áður en fyrsta tilfellið var greint þar fundaði kanslarinn Sebastian Kurz leynilega með svokölluðum Arnar-hópi á hótelinu. Í Arnar-hópnum eru fulltrúar 40 leiðandi fyrirtækja landsins, þar með talið nokkurra skíðalyftufyrirtækja og hótelkeðja. Hópurinn hefur stutt við Þjóðarflokkinn og frambjóðendur flokksins, til að mynda Franz Hörl, þingmann og formann Efnahagsstofnunar Tíról, sem starfar jafnframt í þrýstihópi skíðalyftufyrirtækjanna.

Hópmálsóknin beinist aðallega að Gunther Platter, héraðsstjóra Tíról. Platter hefur sjálfur gefið yfirlýsingar um að heilbrigðisyfirvöld hafi strax hafist handa eftir að vitneskja fékkst um smit í Ischgl. En það voru íslensk sóttvarnayfirvöld sem létu Austurríkismenn vita af fjölmörgum smituðum Íslendingum, nýkomnum frá svæðinu.

Greint var frá því í austurrískum og þýskum miðlum að hóteleigendur og stjórnmálamenn hefðu hylmt yfir smit. Einnig að of lítið hefði verið gert og of seint, í von um að framlengja hátind skíðatímabilsins.