Nítján sjúklingar eru nú inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19. Þar af eru fjórir á gjörgæsludeild, einum fleiri en greint var frá í morgun. Tveir eru í öndunarvél.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd spítalans en samkvæmt nýrri stöðuskýrslu almannavarna eru sex sjúklingar á COVID-göngudeild í rauðum flokki og því líklegir til að leggjast inn á spítalann.

Þá eru 53 sjúklingar á göngudeildinni í gulum flokki sem felur í sér að þeir séu talsvert veikir og ekki á batavegi. Alls eru 1.087 sjúklingar í eftirliti COVID-göngudeildar, þar af 175 börn.

76 einstaklingar hafa nú þurft að leggjast inn á Landspítalann vegna COVID-19 í þriðju bylgju faraldursins.

Búið að skima sjúklinga á Landakoti

Líkt og fram hefur komið greindist einn sjúklingur og nokkrir starfsmenn með COVID-19 á Landakoti í gær.

Skimun sjúklinga og starfsmanna er nú lokið en Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að búið væri að senda 33 sjúklinga á tveimur öldrunardeildum í sóttkví vegna málsins.

Fram kemur í tilkynningu viðbragðsstjórnar og farsóttarnefndar að 152 starfsmenn Landspítalans séu nú í sóttkví A og 21 í einangrun.

Þá hefur fíknigeðdeild spítalans verið opnuð aftur eftir að smit kom þar upp í síðustu viku.

Fréttin hefur verið uppfærð.