Á fundi vísinda­ráðs al­manna­varna í dag var á­kveðið að fjölga GPS tækjum á Reykja­nes­skaga og að taka dróna­myndir af yfir­borði til að meta hvort ein­hver merki séu farin að sjást um færslur eða sprungu­myndanir.

Í til­kynningu frá al­manna­vörnum kemur fram að vísinda­ráðið hafi fundað í dag vegna jarð­skjálfta og inn­skota­virkni á Reykja­nes­skaga. Þar var farið yfir þá jarð­skjálfta sem hafa orðið frá síðasta fundi sem haldinn var í gær.

Segir í til­kynningu að þeir séu all­margir en mis­stórir. Núna séu tvö jarð­skjálfta­svæði virk en að mesta virknin sé á milli Keilis og Fagra­dals­fjalls. Þá segir að einnig sé tölu­verð virkni hjá Trölla­dyngju þar sem átta skjálftar hafa mælst og hafa allir verið undir 3 að stærð.

Á fundinum voru einnig ræddar líkan­keyrslur sem gerðar eru til þess að meta stærð og stað­setningu gangs sem er í myndun þar sem jarð­skjálfta­virkni er hvað mest. Enn vantar meiri gögn til þess að á­ætla þessar stærðir, en næsta radar­mynd, það er gervi­tungla­mynd kemur annað kvöld. Þær niður­stöður sem koma frá gervi­tungla­myndum og GPS tækjum á jörðu niðri eru sagðar í sam­ræmi.