Á næsta ári verður nýtt flokkunarkerfi fyrir heimilisúrgang tekið upp og verður nýjum tunnum komið fyrir á heimilum höfuðborgarsvæðisins. Samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu segir að markmiðið sé að fjölga flokkum, en ekki tunnum.

Ný lög um hringrásarkerfi taka gildi á næsta ári og verður þá skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka: pappír, plastumbúðir, matarleifar og blandaðan úrgang.

Unnið hefur verið að undirbúningi kerfisins síðastliðin tvö ár og stefnt er að því að innleiða breytingarnar á vormánuðum 2023.

„Íbúar munu finna lítið fyrir þessum breytingum, en fólk mun þurfa að tileinka sér nýja flokkunarsiði,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu. Hann telur að hið nýja flokkunarkerfi muni auðvelda íbúum lífið til muna og hafa jákvæð áhrif á loftslagsmál.

„Þar sem plássið er minnst verður í boði að vera með tvær tvískiptar tunnur. Þetta er ekki krafa um fjórar tunnur, heldur fjóra flokka,“ segir Gunnar.

„Í einbýlishúsum og raðhúsum verður hægt að vera með matarleifar og blandað í einni tunnu og plast og pappír í annarri. Í fjölbýlum verða fleiri tunnur nýttar. Ef sorpgeymslan er nú þegar full af tunnum verða teknar tunnur og settar inn nýjar tunnur fyrir matarleifar.“