Á kjörskrá fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eru 31.703 erlendir ríkisborgarar.
Í kosningunum fyrir fjórum árum síðan voru þeir 11.680. Fjöldinn hefur því nærri þrefaldast á aðeins fjórum árum, eða um 28.222 kjósendur.
Á þessum tíma hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað talsvert, úr 37.830 í 51.333. Það eru hins vegar aðeins 13.503 og hluti af þeirri tölu eru börn. Stærstur hluti fjölgunar útlendinga á kjörskrá er því vegna rýmkunar kosningalaga sem gerð var um áramót.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær eru stjórnmálamenn farnir að reyna að höfða til þessa kjósendahóps í auknum mæli og virkja hann til þátttöku í lýðræðinu.
En í síðustu sveitarstjórnarkosningum nýttu aðeins 30 prósent útlendinga hérlendis sinn kosningarétt.
Árið 2018 voru 248.025 manns á kjörskrá og hlutfall útlendinga aðeins 4,7 prósent af því. Nú eru 277.127 á kjörskrá og hlutfall útlendinga orðið 11,4 prósent.
Kjörsóknin í tvennum síðustu sveitarstjórnarkosningum var afar lág, milli 66,5 og 67,6 prósent, samanborið við 73,5 prósenta kjörsókn árið 2010 og 78,7 prósent árið 2006. Verði kosningaþátttaka útlendinga áfram lítil má búast við því að kjörsókn minnki enn meir í ár.
Árið 2018 var kjörsókn einstaklega lág í sumum sveitarfélögum. Til dæmis 57 prósent í Reykjanesbæ þar sem hlutfall útlendinga af íbúafjölda er 25 prósent.