Björgunarsveitir hafa farið í fjölda útkalla víða um land í gærkvöldi og í nótt. Karen Ósk Lárusdóttir verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Landsbjörg segir í samtali við Fréttablaðið að töluverður fjöldi útkalla hafi verið í nótt og að nú séu þau að færast austar.

Hún segir að útköllin hafi verið margs konar, bæði við heimili og vinnusvæði, og að nú hafi bæst við vegalokanir en Vegagerðin tilkynnti í morgun að búið væri að loka veginum frá Kirkjubæjarklaustri að Djúpavogi vegna óveðursins.

Hún hafði ekki tölu á því hversu mörg útköll hafði verið farið í eða hversu margir björgunarsveitarmenn hafi verið kallaðir út en sagði fjöldann mikinn.

Enn er í gildi appelsínugul og gul viðvörun á nánast öllu landinu. Rauð viðvörun tekur við á hádegi á Austfjörðum.

Hafir þú myndir eða myndbönd af óveðrinu sem þú vilt deila með Fréttablaðinu er hægt að senda þær á ritstjorn@frettabladid.is eða í gegnum Facebook-síðu okkar hér.