Stað­fest smit hér á landi af völdum kórónu­veirunnar sem veldur CO­VID-19 eru orðin 568. Þetta er sam­kvæmt nýjum tölum sem birtust á vefnum Co­vid.is í morgun. Rúm­lega 90 smit greindust í gær sem er það mesta á einum degi síðan far­aldurinn hófst hér á landi.

Alls voru tekin 350 sýni í gær; 320 á sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítalans og 30 hjá Ís­lenskri erfða­greiningu.

Sam­kvæmt Co­vid.is eru 546 ein­staklingar nú í ein­angrun og teljast 22 ein­staklingar nú hafa náð bata. Þá dvelja 12 ein­staklingar á sjúkra­húsi og 6.340 eru í sótt­kví. Sam­tals hafa verið tekin rúm­lega tíu þúsund sýni síðan að skimun hófst.

Lang­flest smit hafa komið upp á höfuð­borgar­svæðinu, eða 404, en 34 hafa greinst á Suður­landi og 23 á Suður­nesjum.

Al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra hefur boðað til upp­lýsinga­fundar fyrir blaða­menn klukkan­klukkan 14 í dag eins og alla daga síðustu vikur. Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn og Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir munu fara yfir stöðu mála.

Þá verður sjónum sér­stak­lega beint að í­þrótta­starfi og mun Lárus L. Blön­dal, for­seti Í­þrótta- og ólympíu­sam­bands Ís­lands, fara yfir á­skoranir og verk­efni í­þrótta­hreyfingarinnar vegna CO­VID-19.