Fjöldi skóla­barna eru meðal þeirra sem létust í miklum jarð­skjálfta sem reið yfir eyjuna Jövu í Indónesíu í gær. Að minnsta kosti 268 eru látnir og 151 enn saknað. BBC greinir frá.

Hinn fjór­tán ára Aprizal Mu­lyadi var í skólanum þegar skjálftinn reið yfir. Í sam­tali við BBC sagðist hann hafa verið fastur þegar „her­bergið hrundi og fætur hans grófust undir grjót­mulningi.“ Vinur hans hafi dregið hann í öruggt skjól, en sá hafi látist síðar eftir að hafa orðið undir grjóti.

Talið er að um tuttugu og tvö þúsund hús hafi skemmst og meira en fimm­tíu og átta þúsund manns leitað skjóls víðs vegar um héraðið.
Fréttablaðið/Getty

Að sögn Su­hary­anto, yfir­manns National Disa­ster Mitigation Agen­cy stofnunarinnar, er fjöldi særðra kominn vel yfir eitt þúsund. Þar af eru 300 al­var­lega sárir og rúm­lega 600 með minni­háttar á­verka. Þá hafi tuttugu og tvö þúsund hús skemmst og meira en fimm­tíu og átta þúsund manns leitað skjóls víðs vegar um héraðið.

Jarð­skjálftinn, sem mældist 5,6 að stærð, reið yfir fjall­lendi í gær og olli aur­skriðum sem flæddu yfir heilu þorpin á vestur­hluta eyjunnar Jövu.

Fórnarlömb skjálftans krömdust eða festust undir rústunum eftir að veggir og þök hrundu.

Fjöldi særðra er kominn vel yfir eitt þúsund. Þar af eru 300 al­var­lega sárir og rúm­lega 600 með minni­háttar á­verka.
Fréttablaðið/Getty

Henri Al­fiandi, yfir­maður Björgunar­stofnunarinnar þar í landi, stað­fest að margir hinna látnu séu börn.

„Flest hinna látnu eru börn. Jarð­skjálftinn reið yfir klukkan eitt eftir há­degi, þegar þau voru enn í skólanum,“ sagði Al­fiandi.

Joko Widodo, for­seti landsins, heim­sótti ham­fara­svæðið í morgun.

„Fyrir­mæli mín eru að setja það í for­gang að finna þá sem eru enn fastir undir rústunum og koma þeim í skjól,“ sagði Widodo.

Hundruð björgunar­manna og lög­reglu­manna taka þátt í björgunar­starfinu og lofaði for­setinn skaða­bótum til þeirra sem urðu verst úti.

Fórnar­lömb krömdust eða festust undir rústunum eftir að veggir og þök hrundu.
Fréttablaðið/Getty