Sam­kvæmt nýju spá­líkani Há­skóla Ís­lands um CO­VID-19 er gert ráð fyrir að rúm­lega 1500 manns verði greindir með CO­VID-19 en sú tala gæti nálgast 2300 ef svart­sýnustu spár ganga eftir. Líkanið var gefið út fyrr í dag en spáin hefur breyst frá 22. mars þar sem færri smit hafa greinst síðustu daga.

Þá er gert ráð fyrir að fjöldi greindra ein­stak­linga með virkan sjúk­dóm muni ná há­marki fyrstu vikuna í apríl. Fjöldinn yrði senni­lega um 1200 manns en 1600 sam­kvæmt svart­sýnustu spá. Í dag eru 737 stað­fest en 68 hafa náð sér eftir að hafa veikst.

Fimm­tán eru nú á sjúkra­húsi vegna veirunnar, þar af tveir á gjör­gæslu og einn í öndunar­vél, en sam­kvæmt líkaninu munu á bilinu 100 til 160 manns þarfnast inn­lagnar. Spáð er að mesta á­lagið á heil­brigðis­þjónustu muni verða fyrir miðjan apríl og að 60 til 80 ein­staklingar verði inn­liggjandi á sama tíma. Einnig er því spáð að allt frá þrettán til 23 ein­staklingar þurfi inn­lögn á gjör­gæslu.

„Greiningar­vinnan mun halda á­fram og spá­líkanið verður upp­fært reglu­lega með nýjum upp­lýsingum. Hafa ber í huga að vegna fá­mennis geta tölurnar um fjölda greindra til­fella breyst mikið frá degi til dags sem hefur á­hrif á niður­stöður spá­líkansins. Líkanið verður þó stöðugra eftir því sem á líður.“

Spárnar í heild sinni má sjá hér.

Uppsöfnuð greind smit samkvæmt líkaninu.
Virk greind smit á hverjum degi.