Karlmaður var í dag dæmdur í átján mánaða fangelsi skilorðsbundið til fimm ára í Héraðsdómi Reykjaness fyrir gríðarlegan fjölda þjófnaðarbrota. Brotin áttu sér stað á rúmlega fimm mánaða tímabili og voru 28 talsins. Áætlað verðmæti alls þýfis nemur ríflega 43 milljónum króna.

Málið yfir manninum var höfðað með tveimur ákærum Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Sú fyrri varðaði 25 brotanna, en þau eiga margt sameiginlegt. Í mörgum þeirra braust hann inn í nýbyggingar, oft með því að spenna upp glugga og stal verkfærum og öðrum iðnaðargræjum.

Í dómnum eru munirnir sem maðurinn tók ófrjálsri hendi taldir upp, en í innbrotinu þar sem þýfið var metið verðmætast, rúmlega sjö milljón krónur, var það eftirfarandi:

„DeWalt-höggskrúfvél, tveimur DeWalt-höggborvélum, DeWalt-slípiokk, DeWalt-geirsög, DeWalt-fjölnotasög, DeWalt-bandsög, tveimur DeWalt-hleðslutækjum, DeWalt-þrífót, DeWalt-verkfæraboxi, fræsara, fjórum laser mælitækjum, Spit-bor, fjórum DeWalt-hleðslurafhlöðum, DeWalt-bor, Makita-stingsög, tveimur Makita-höggborvélum, Makita-heftibyssu, Makita-borskrúfvél, tveimur Makita-slípirokkum, pússningarvél, níu Dry cut diamonds-borum, þremur flísaboltum, tíu póleringarskífum, flísaborvél með vatni, pípulögnum, raflögnum, 180 innfelldum ljósum, DeWalt-steypuvíbrador, 150 kverkaborðum, sextíu Osram-ljósaperum, fjórtán Osram-spennum og borðum, þremur skolvöskum, Tjep-naglabyssu, rafmagnshitablásara, spartslsprautu, tveimur slípivélum, spartslskúffu, tveimur Bosch-handslípivélum, Wagner Spraytech-málningarsprautu, tveimur Scanprip-ljósum og ýmsum verkfærum og munum.“

Bílstuldur og fíkniefnabrot

Seinni ákæran varðaði fjölbreyttari brot. Til að mynda innbrot í bílaumboð Öskju þar sem maðurinn stal bíl. Og þá braust hann inn í æfingaaðstöðu og stal meðal annars Samsung-sjónvarpi og æfingatösku sem innihélt vesti, hlífar, límband, gleraugu og púðurskot.

Þá var hann einnig dæmdur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að keyra bíl um Bústaðaveg undir áhrifum amfetamíns, en hann þótti óhæfur til að stjórna bílnum örugglega. Auk þess gerði lögregla húsleit í herbergi mannsins en þar fundust 76,42 grömm af amfetamíni og 110 stykki af læknislyfjum.

Hefur áður hlotið dóma og glímt við fíknivanda

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust, og mat dómurinn það næga sönnunarfærslu. Maðurinn krafðist einnig vægustu refsingar sem lög leyfa.

Maðurinn er þrjátíu ára gamall og hafði árið 2009 hlotið dóm fyrir þjófnað og 2012 fyrir rán, þjófnað og önnur hegningarlagabrot, og aftur 2014 fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Fram kemur að maðurinn hafi um árabil glímt við fíknivanda. Hann virtist hafa haldið sig á beinu brautinni frá 2014 þangað til hann féll árið 2021, en þá hóf hann brotahrinuna sem dómurinn varðar til að fjármagna neysluna. Í dómnum segir að maðurinn virðist nú hafa náð einhverjum tökum á lífi sínu, sæki AA-fundi reglulega, er að hefja endurhæfingu hjá VIRK og stefnir að því að komast aftur út á vinnumarkað. Þá segir að maðurinn eigi ungt barn af fyrra sambandi sem hann nýtur umgengni við.

Við ákvörðun dómsins var tekið tillit til þess að ákærði hafi staðið skilorð síðasta dóms síns. Þá kemur fram að stærstur hluti þýfisins hafi komist aftur til skila til eigenda sinna. Líkt og áður segir var maðurinn dæmdur í átján mánaða fangelsi skilorðsbundið til fimm ára. Þá var hann einnig sviptur ökurétti í átján mánuði, og dæmdur til að greiða einstaklingi 551.290 krónur, og 868.744 krónur í lögmanns- og sakarkostnað.