Palestínsk yfir­völd á Gaza segja að ekki hafi fleiri látist heldur en í gær síðan nú­verandi átök við Ísraels­menn hófust. Kemur fram á vef BBC að 42 manns hafi látist í loft­á­rásum Ísraela á Gaza ströndina í gær.

Hefur miðillinn eftir Ísraels­her að her­skáir Palestínu­menn hafi skotið meira en 3000 eld­flaugum á Ísrael síðustu viku. Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísrael, sagði í gær að ekki verði dregið úr krafti loft­á­rása. Mark­miðið sé að láta Hamas sam­tökin „gjald­a dýru verð­i“ fyrir á­rásir sínar.

Antonio Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, varar við því að frekari átök geti valdið ó­aftur­kræfum skaða fyrir heims­hlutann. Hvatti hann til þess að látið yrði af of­beldinu.

Hafa Sam­einuðu þjóðirnar varað við elds­neytis­skorti á Gaza strönd, sem leitt getur til þess að spítalar og aðrar stofnanir verði raf­magns­lausar. Hefur BBC eftir Lynn Hastings, yfir­manni meðal hjálpar­sam­taka SÞ, að hún hafi beðið ísraelsk stjórn­völd um að fá að fara með elds­neyti og önnur gögn til Gaza. Henni hafi verið sagt að það sé ekki hægt vegna öryggis hennar.

Yfir­völd á Gaza svæðinu segja að 42 manns, þar af 16 konur og 10 börn hafi látist í loft­á­rásum Ísraela í gær. Tíu manns, þar af tvö börn hafa látist í flug­skeyta­á­rásum á Ísrael síðan átök hófust síðasta mánu­dag, sam­kvæmt ísraelskum yfir­völdum.

Alls hafa 197 látist á Gaza, þar af 58 börn og 34 konur auk þess sem 1230 manns eru slasaðir, að sögn heil­brigðis­yfir­valda á Gaza sem eru undir stjórn Hamas sam­takanna. Ísraels­menn full­yrða að tugir víga­manna séu meðal fallinna.