„Mér finnst ekkert fjarstæðukennt að draga þá ályktun að íhaldssamar karlmennskuhugmyndir komi í veg fyrir náin vinasambönd hjá körlum,“ segir Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur. Þorsteinn heldur úti vefmiðlinum Karlmennskan og fékk hann á dögunum senda einlæga frásögn manns sem lýsir því að hafa upplifað sig einmana og skorta nána vini.

Í frásögn sinni segir maðurinn, sem ekki kemur fram undir nafni, frá því að hann hafi í gegnum tíðina misst samband við vini og kunningja og upplifi sig í kjölfarið einmana. Þá segir hann það hafa tekið sig mörg ár að þora að segja konunni sinni frá því hvernig honum leið. Í kjölfar frásagnarinnar setti Þorsteinn af stað skoðanakönnun þar sem hann spyr karla hvort þeir upplifi sig einmana og hvort þeir vildu eiga fleiri nána vini.

„Tólf prósent svarenda segjast ekki eiga neinn náinn vin og þrjátíu prósent segjast eiga engan eða einn náinn vin,“ segir Þorsteinn. Þá segjast 30 prósent eiga tvo til þrjá nána vini og 40 prósent fjóra eða fleiri. Þorsteinn segist telja ástæðuna vera ráðandi karlmennskuhugmyndir í samfélaginu.„Við búum við karlmennskuhugmyndir og þær stjórna því að miklu leyti hvernig við högum okkur. Þessar hugmyndir tel ég að geti komið í veg fyrir að strákar geti verið auðmjúkir, einlægir og sannir sjálfum sér,“ segir Þorsteinn.

„Karlmennskan er alls konar en á yfirleitt ákveðnar rætur sem byggja til dæmis á hómófóbíu og þá erum við alltaf að sanna gagnkynhneigð okkar.“Um 200 karlmenn höfðu svarað könnuninni í gær þegar Þorsteinn ræddi við Fréttablaðið og tekur hann fram að um sjálfvalið úrtak sé að ræða og að ekki sé hægt að yfirfæra niðurstöður könnunarinnar á stærra þýði, þær geti þó gefið einhvers konar vísbendingu um upplifun karla á einmanaleika.

„Ég spurði líka um það hvort þátttakendur myndu vilja eiga fleiri nána vini og þeirri spurningu svara 72 prósent játandi,“ segir Þorsteinn. „Önnur spurning sneri að því hvort karlmenn upplifðu það að geta ekki talað um ákveðna hluti eða skömmuðust sín og það eru áberandi svör um að karlar skammist sín og tali ekki um einmanaleika, kvíða og þunglyndi. Nokkrir nefndu líka minnimáttarkennd, lítið sjálfstraust og útlit svo eitthvað sé nefnt,“ bætir hann við.

Aðspurður um það hvað sé til ráða segist Þorsteinn sannfærður um að lausnin felist meðal annars í því að hreyfa við íhaldssömum karlmennskuhugmyndum. „Með því öðlast strákar og karlar aukið frelsi til þess að vera eins og þeir eru og við munum sjá meira jafnrétti í okkar samfélagi, þetta er mín sannfæring. Það að við séum farin að ræða þessi mál er bein afleiðing af femínískri jafnréttis- og mannréttindabaráttu og það er einstakt tækifæri.“