Á síðustu tveimur dögum hefur Ís­lendingum sem gista í far­sóttar­húsum farið fjölgandi, að sögn Gylfa Þórs Þor­steins­sonar, for­stöðu­manns far­sóttar­húsa. Það er því ljóst að þónokkrir Íslendingar munu þurfa eyða Verslunarmannahelginni í farsóttarhúsum Rauða Krossins.

Alls gista 207 ein­staklingar í far­sóttar­húsum um þessar mundir. Von er á 11 til við­bótar seinna í dag og verða því gestir far­sóttar­húsanna 218 fyrir lok dags.

Spurður um samsetningu þeirra sem dvelja nú í farsóttarhúsum, segir Gylfi allur gangur á því.

„Ís­lendingarnir eru í yngri kantinum meðan er­lendu ferða­mennirnir eru í eldri kantinum,“ segir Gylfi Þór í sam­tali við Frétta­blaðið. Þá eru einnig þó nokkrar fjölskyldur saman í farsóttarhúsunum, að sögn Gylfa.

Vaktarplanið fyrir versló „að fæðast“

Spurður um hvernig hefur gengið að manna far­sóttar­húsin um Verslunar­manna­helgina, segir Gylfi vak­ta­planið vera „að fæðast“ en nú­verandi starfs­fólk hefur breytt sínum plönum til að manna helgina.

„Við erum svo heppin að það starfs­fólk sem við vorum með áður en þetta byrjaði það hafa margir hverjir breytt sínum plönum svo við gætum mannað þetta. Þau gerðu það ó­um­beðin. En ein­hverjir eru á eið í frí eftir verslunar­manna­helgi. Það ýtir á okkur að vera fljótt og dug­leg að ráða inn,“ segir Gylfi.

Einangrunarherbergin að fyllast

Innan­lands­smitum hefur fjölgað ört á síðustu dögum og greindust 122 smit í dag. Gylfi segir ljóst að það þurfi að fara í að­gerðir svo far­sóttar­húsin fyllast ekki á næstu dögum.

„Það er alveg ljóst að við þurfum að fara í að­gerðir á næstu dögum. Ein­angrunar­her­bergin sem eru alltaf í for­gang hjá okkur eru af skornum skammti. Við eigum kannski svona fimm­tíu her­bergi eftir og þar af fara ellefu í dag,“ segir Gylfi.

„Þetta er fljótt að fara. Þannig hvort sem við verðum komin í vand­ræði á morgun eða eftir tvo daga er ó­víst en það stefnir í að við þurfum að bregðast við,“ bætir hann við.