Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, segir enn töluverða óvissu ríkja um stöðuna vegna fjölgun covid-smita hérlendis en það verður auðvitað litið til fjölda innlagna á spítala þegar kemur að því að endurmeta samkomutakmarkanir.
Metfjöldi smita greindist innanlands í gær en þegar 123 einstaklingar greindust með veiruna. Alls eru nú 745 einstaklingar í einangrun með veiruna en einungis þrír á spítala.
„Óvissan um stöðuna er enn þá töluverð en ástæðan fyrir því að við setjum þessar aðgerðir með þeim hætti sem við gerum er út af því að við viljum átta okkur á því hvort þessi mikli fjöldi smita sé að leiða til alvarlegra veikinda eða ekki. Auðvitað hefur það áhrif á framhald aðgerða,“ segir Katrín. „En það er í raun og veru allt of snemmt að segja til um það,“ bætir hún við.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að næsta vika myndi skipta miklu máli. Ef fáir leggjast inn á spítala af völdum covid-19 ætti að leyfa fólki meira frelsi og leggja kapp í að verja elliheimilin og áhættuhópa.
„Ég held við verðum að halda niðri í okkur andanum. Bíða í svona viku og þá endurmeta nálgun okkur á þetta. Ef að spítalinn fyllist ekki og menn eru tiltölulega lítið lasnir þá er þetta eitthvað sem við verðum að læra búa við,“ sagði Kári í gær.
Evrópubúar fylgjast með hvað gerist á Íslandi
Katrín segir ríkisstjórnina fylgjast grannt með hvað önnur ríki hafa verið að gera og bætir við að ráðstafanirnar hérlendis séu mjög svipaðar og þær sem eru í gildi á hinum Norðurlöndunum.
„En við höfum verið aðeins á undan þeim þar sem okkar bólusetningar hafa gengið mjög vel og þátttaka verið mjög mikil,“ segir Katrín og bætir við að augu Evrópubúa séu í raun á Íslandi um þessar mundir.
„Ég held það sé líka alveg á hreinu að fólk, annars staðar í Evrópu, sé að fylgjast með hvað gerist nú á Íslandi. Að því við erum komin með þetta háa bólusetningarhlutfall. Erum búin að fara í afléttingar og erum núna stíga skref í þá átt að setja mildar takmarkanir innanlands en líka að herða á landamærunum en síðan ræðst þróunin að því hvert framhaldið verður,“ segir Katrín.
Spurð um hvort það væri ekki réttast að aflétta takmörkunum ef innlagnir eru fáar, segir Katrín stöðuna enn vera of opna til að ákveða það núna.
„Við höfum verið að horfa sérstaklega til innanlandstakmarkanir í því samhengi. Að hafa þær sem minnstar. Það verður áfram forgangsröðunin. En það er aðeins of snemmt að segja til um það núna og þetta skýrist á næstu vikum,“ segir Katrín að lokum.