Talsvert hefur borið undanfarið á stuldi á hvarfakútum sem eru undir bílum til mengunarvarna.

Um síðustu helgi benti íbúi á Kjalarnesi á hræ af fjölmörgum hvarfakútum sem lágu í fjörunni neðan við Arnarholt. Kútarnir og fleiri aðskotahlutir voru fjarlægðir á sunnudag af Hrafni Jökulssyni og félögum hans í samtökunum Veraldarvinum. Hrafn segir að Björgvin Kristbergsson, starfsmaður Reykjavíkurborgar, hafi bent honum á málið.

„Björgvin sagði mér að gera þetta og ég hlýddi. Síðan fór ég og hlustaði á Kjalnesinga,“ segir Hrafn sem kveður Veraldarvini síðan hafa gert listaverk úr hvarfakútunum.

Hrafn Jökulsson og hvarfakútarnir á Kjalarnesi.

Í umræðum um málið í Facebook-hópi Kjalnesinga sagði Skúli Rúnar Reynisson hjá partasölunni Partout í Ásbrú í Reykjanesbæ að honum sýndust þarna komnar leifar af verðmætum sem stolið hefði verið af honum. Partout sérhæfir sig í BMW-bílum.

„Það var tekið undan tólf bílum í portinu hjá mér,“ segir Skúli við Fréttablaðið. Verið sé að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum. „Ég er búinn að sjá undarlegar mannaferðir í tvo daga sem verið er að rannsaka.“

Tjón sitt segir Skúli vera nærri tvö hundruð þúsundum króna. Öllu stærra tjón hafi orðið hjá bílaleigunni Icecar 4x4 sem sé þar skammt frá. Þar hafi verið teknir hvarfakútar undan um 30 bílum. Þar þurfi að setja nýja kúta undir með tilheyrandi kostnaði.

Það sem þjófarnir sækjast eftir eru ýmsir góðmálmar sem eru inni í hvarfakútunum og hægt er að koma í verð erlendis. Eru það málmar á borð við platínu, palladín og ródín.

Miklum verðmætum var stolið frá fyrirtækinu e.e.export ehf. skömmu áður en þjófar gerðu óskundann á Ásbrú. „Það náðust á mynd þrír menn að skera upp hliðina á flutningabíl hérna hjá mér,“ segir Einar Ólafsson, eigandi e.e.export.

Að sögn Einars reyndu þjófarnir fyrst að opna flutningabílinn með því að skera á glussaslöngu í þeirri von að afturhlerinn myndi opnast. „Það gekk ekki og þeir ristu þá bara gönguleið inn í bílinn með slípi­rokki,“ segir hann.

Um 140 hvarfakútar í flutningabílnum

Um 140 hvarfakútar af ýmsum gerðum voru í flutningabílnum að sögn Einars, sem kveður þjófana hafa komið þeim fyrir í þúsund lítra plastkari sem þeir hafi síðan dregið í hvarf við endimörk lóðarinnar.

Einar sérhæfir sig meðal annars í að flytja hvarfakúta til útlanda þar sem unnir eru úr þeim góðmálmar sem hann kemur síðan í verð á markaði.

Aðspurður kveðst Einar meta beint tjón sitt upp á minnst 2,5 milljónir króna. Annars vegar hafi viðgerðin á bílnum kostað eina milljón og hins vegar hafi hann greitt um 1,5 milljónir fyrir hvarfakútana. Fyrir utan beint tjón verður Einar af hagnaði af sölu góðmálmanna ytra.

„Ég tilkynnti þetta náttúrlega strax til lögreglu en veit ekki hvort þeim getur orðið eitthvað ágengt. Það er ekki hægt að greina hverjir eru á myndunum því það var mjög dimmt þegar þjófarnir létu til skarar skríða klukkan ellefu á laugardagskvöldi,“ segir Einar.

Hjá lögreglunni fást þær uplýsingar að umrædd mál séu óupplýst. Sama gildi um sambærileg mál frá því vor.

Listaverk Veraldarvina úr hvarfakútunum á Kjalarnesi.