Gistinætur á skráðum gististöðum á Íslandi í mars fimmfölduðust á milli ára, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Aukningin var fyrst og fremst í erlendum gistinóttum.
Í mars á síðasta ári voru skráðar gistinætur ríflega 98 þúsund talsins en í sama mánuði á þessu ári voru þær rúmlega 488 þúsund. 75 prósent þeirra voru erlendar. Séu gistinætur í mars síðastliðnum bornar saman við mars árið 2020, þegar kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi, sést að fjöldi þeirra jókst um 87 prósent.
Á tólf mánaða tímabili, frá apríl 2021 til mars 2022, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum yfir þrjár milljónir. Það er tæplega fjórfalt meira en á sama tímabili árið áður. Aukning var í öllum landshlutum á þessu tímabili.