Breytt kosningalög sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn rýmka kosningarétt fólks hér á landi af erlendum uppruna. Ekki þarf ríkisborgararétt til að kjósa til sveitarstjórnar.

Í 4. grein kosningalaga segir að hver íslenskur ríkisborgari sem hefur náð 18 ára aldri og á lögheimili geti kosið í viðkomandi sveitarfélagi. Hitt er ekki á allra vitorði að sérhver danskur, finnskur, norskur og sænskur ríkisborgari getur kosið ef hann á lögheimili hér á landi. Hvað aðra varðar hefur verið sett viðmið um samfellt þriggja ára lögheimili fyrir kjörgengi.

Sara Björg Sigurðardóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar í borginni, segir að margir íbúar hafi komið af fjöllum þegar rætt var hvort þeir hefðu kosningarétt.

„Við erum að tala um íbúa sem eru búnir að vera búsettir hérlendis í mörg ár, greitt skatta og skyldur, verið stórnotendur þjónustu borgarinnar en vissu ekki að þeir gætu kosið til sveitarstjórna,“ segir Sara Björg.

„Við sem samfélag verðum að gera betur til að upplýsa íbúa okkar um hvaða réttindi þeir hafa í okkar samfélagi. Eitt það verðmætasta er rétturinn til að kjósa,“ bætir hún við.