Fjöldi fólks krafðist þess að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segði af sér embætti á mótmælafundi á Austurvelli í dag. Fjöldi fólks var saman komin á mótmælafundinum, sem bar yfirskriftina Lýðræði ekki auðræði, en afsögn ráðherrans var ein aðalkrafa mótmælenda.

Mótmælin hófust klukkan 14 í dag og fór Katrín Oddsdóttir með fundarstjórn. Þeir sem ávörpuðu fundinn voru Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Atli Þór Fanndal blaðamaður, Þórður Már Jónsson lögmaður og Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Katrín Oddsdóttir fór með fundarstjórn í dag en meðal ræðumanna var Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Kröfur mótmælenda eru eftirfarandi:

I. Sjávarútvegsráðherra segi tafarlaust af sér embætti.

II. Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012—Að sjálfsögðu með því auðlindaákvæði sem kjósendur samþykktu.

III. Arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra.

Mótmælendur telja Kristján Þór þannig ekki hæfan til að sinna þeim verkefnum sem ríkisstjórnin stendur frami fyrir eftir umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um viðskipti Samherja í Namibíu. Kristján er fyrrverandi forstjóri Samherja.

Fjölbreyttur hópur samtaka og stéttarfélaga setti nafn sitt við mótmælin. Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu, Öryrkjabandalagið og hópur almennra borgara og félagasamtaka skipulögðu þannig viðburðinn á Austurvelli.

Best smurða svikamylla samtímans

Hljómsveitin Hatari, sem keppti fyrir hönd Íslands í Eurovision í ár, tók þá einnig lagið fyrir fundargesti. „Samherji er augsýnilega ein best smurða svikamylla samtímans. Stjórn Svikamyllu ehf. bað okkur því að skila þeim hamingjuóskum í tilefni dagsins,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson, meðlimur Hatara í samtali við Fréttablaðið. „Það ætlum við að gera með því að spila lagið Spillingardans félaginu til heiðurs.“

Klemens og Matti, meðlimir Hatara, í sínu fínasta pússi fyrir framan þinghúsið.

Hljómsveitin kveðst þá einnig vilja hvetja þingheim til að „kæfa ekki nýju stjórnarskrána í móki meðalmennskunnar“.

Ekki náðist í Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra við gerð fréttarinnar.